Konudagshumar
Jæja piltar. Á morgun er dagur til að dekra við konuna enn frekar en aðra daga, gera henni góðan dagamun og elda fyrir hana rétt sem hæfir elskendum á öllum aldri. Og hvað er betra fyrir konuna sem við elskum en flottur humar. Við erum kannski mis góðir í eldhúsinu karlarnir en þessi uppskrift sem er fyrir tvo, er einföld og við flestra hæfi. Í boði er að vera bæði með glóðaðan humar og soðinn eða annaðhvort, en sé aðeins önnur aðferðin notuð þarf að tvöfalda uppskriftina.
Þá er bara að drífa sig út í búð og kaupa humar og það sem til þarf og gera klárt fyrir rómantískan málsverð að kvöldi konudags.
Innihald:
Glóðaður humar:
8-12 humarhalar
1 rauð paprika
Soðinn humar:
8-12 humarhalar
2 dl vatn
1 tsk salt
safi úr hálfri sítrónu
lárviðarlauf eða dillkvistur
Sósa:
1 dl rjómi
250 g majones
2 msk chilisósa eða tómatþykkni
safi úr einni sítrónu
Meðlæti:
Sítrónubátar
tómatar
sneiddir sveppir
ristað brauð
Aðferðin:
Glóðaðir humarhalar:
Klippið upp humarhalana (undir).Þræðið humarhallana og paprikusneiðar til skiptis upp á grilltein. Glóðið í tvær mínútur á hvorri hlið.
Humar, soðinn og skelflettur:
Klippið upp humarhalana (undir) með skærum. Við það losnar kjötið auðveldlega frá skelinni eftir suðu.
Sjóðið vatn , salt, sítrónusafa og lárviðarlauf, eða dillkvist í potti. Setjið humarhalana í sjóðandi vatnið, hleypið upp suðu og látið sjóða í þrjár mínútur. Takið strax upp úr. Skelflettið humarinn.
Sósa
Léttþeytið rjómann og blandið honum saman við majonesið. Bragðbætið með chilisósu eða tómatsósu og sítrónusafa.
Berið fram með ristuðu brauði og salati.
Hvítvín úr þrúgunni Chardonnay eiga vel við humar.