Risahörpuskel í papriku

Deila:

Stundum er gott að spá í spil, ekki endilega til að sigra heiminn, heldur til að finna góðar uppskriftir. Spilin sem við spáðum í núna eru „Veiðimann“, uppskriftaspilabók frá árinu 2007. Þar er að finna 55 uppskriftir að sjávarréttum, 52 venjuleg spil og þrjá „jókera“. Þetta eru flottar uppskriftir og sniðnar eftir sortunum, „á hjörtunum eru frekar hollar uppskriftir, á spöðunum eru uppskriftir frá kokkum, á tíglunum eru uppskriftir víða að og á laufunum eru frekar einfaldar uppskriftir sem miðaðar eru við fjölskyldur“. Þessi uppskrift er að forrétti fyrir fjóra.
Fyrir utan þetta ágæta notagildi spilanna, er svo auðvitað hægt að spila á spilin með spekingslegum svip og gæta þess að ekki sé vitlaust gefið.

Innihald:

2 stórar rauðar paprikur
8 risahörpuskeljar
Pestó
Furuhnetur
Salt og pipar

Aðferð:

Paprikurnar skornar í tvennt og kjarnhreinsaðar. Pestó (má nota hvaða pestó sem er) sett í botninn og furuhnetum stráð yfir.
Hörpuskeljunum komið fyrir í paprikubotnunum, saltað og piprað eftir smekk.
Raðið paprikunum á plötu eða í eldfast mót og bakið við 200°C í 10 til 15 mínútur eða þar til hörpuskelin er farin að taka lit.

Deila: