Lítið um loðnu í maga þorsks
„Fyrsta mæling á þorskárgangi 2023 bendir til að hann sé nálægt meðaltali meðan árgangar 2020-2022 (2-4 ára) mælast allir undir meðaltali í fjölda. Meðalþyngd 1-7 ára þorsks mældist undir meðaltali en meðalþyngd annarra aldurshópa var um eða yfir meðaltali. Undanfarinn áratug hefur meðalþyngd þorsks 5 ára og yngri oftast verið undir meðaltali en meðalþyngd eldri þorsks hefur verið yfir meðaltali. Magafylli þorsks var almennt töluvert minni í ár og er ástæða þess að lítið var af loðnu í mögum samanborið við flest fyrri ár.” Þetta kemur fram í frétt Hafró um skýrslu stofnunarinnar um framkvæmd og niðurstöður stofnmælinga botnfiska á Íslandsmiðum. Skýrslan hefur verið birt á vefnum.
Komin er út skýrsla þar sem gerð er grein fyrir framkvæmd og helstu niðurstöðum stofnmælingar botnfiska á Íslandsmiðum sem fram fór dagana 28. febrúar til 20. mars 2024. Niðurstöður eru bornar saman við fyrri ár en verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert frá 1985.
„Stofnvísitala þorsks hækkaði nær samfellt árin 2007-2017, fyrst og fremst vegna aukins magns af stórum þorski. Eftir lækkun árin 2018-2020 hefur vísitalan hækkað aftur og hefur verið á svipuðu róli síðustu 4 árin,” segir í fréttinni.