„Útgerðin ber mesta ábyrgð“

Deila:

Útgerðin ber mesta ábyrgð á brottkasti og því að vigtun afla sé ekki sem skyldi, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

„Það er eiginlega tvíþætt. Þetta er annars vegar brottkast og hins vegar vigtunarmál. Það er alveg ljóst að það er brottkast til staðar. Það er algjörlega óviðunandi og það er algjörlega ólíðandi. Þar ber útgerðin mesta ábyrgð. Það verður líka að draga það fram að eftir mín samtöl við Hafró, Fiskistofu, forystu sjómanna og útgerðar eru menn sammála um það að það er búið að draga úr brottkasti en það er enn til staðar,“ sagði Þorgerður Katrín í Silfrinu á RUV í gærmorgun.

„Það liggur alveg ljóst fyrir að það er verið að fara framhjá vigt. Endurvigtun er ekki að skila sér með heiðarlegum hætti inn í kerfið. Það verður að fara inn í þetta kerfi og stokka aðeins upp í því.“ Þorgerður sagði að gott skref hafi verið stigið síðasta vor með því að auka gagnsæi þegar farið var að miðla upplýsingum um íshlutfall fyrirtækja. Það sé þó ekki nóg.

Þorgerður Katrín segir að styrkja þurfi úrræði og viðurlög til að taka á brottkasti og vigtunarmálum. Eins og fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik hefur Fiskistofa ekki tök á að sinna þessum málum. Þorgerður Katrín sagði í Silfrinu að það væri að hluta vegna þess að Fiskistofu hefði verið splundrað þegar hún var flutt til Akureyrar. „Það var pólitísk ákvörðun Sigurðar Inga [Jóhannssonar, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra] að fara með stofnunina, sundra henni og setja í þetta einhverjar þrjú til fjögur hundruð milljónir sem ég hefði frekar viljað sjá í uppbyggingu á eftirlitskerfinu innan sjávarútvegskerfisins.“

Þar vísaði hún til þess að stofnunin hefði skipst milli tveggja staða, starfsmenn hætt og kostnaður hlotist af flutningunum.

 

Deila: