Vöðuselir á Eyjafirði
Stór selavaða náðist á myndband úti fyrir Böggvisstaðasandi austan við Dalvík í gær. Að sögn Hauks Arnars Gunnarssonar vélstjóra, sem tók myndbandið með aðstoð dróna, hefur vaðan haldið sig við ströndina í á aðra viku. Erlingur Hauksson sjávarlíffræðingur segist geta greint af myndbandinu að þetta séu vöðuselir. „Mér sýnist það. Á fullorðnum vöðuselum myndast svartur skjöldur á bakinu, sem er sérstaklega fallegur á karldýrum. Svo sá ég líka svartan haus á nokkrum þegar þeir komu upp úr sjónum.“ Frá þessu er sagt á ruv.is
Haukur Arnar deildi myndbandinu á Facebook og bætti því síðar við að hann hefði talið 69 dýr á svæðinu. Erlingur segir að þótt það sjáist ekki af myndbandinu sé það ekki ósennileg tala, og að það væri raunar ekkert svo stór hópur.
Erlingur segir að vöðuselurinn sé árlegur gestur við Íslandsstrendur, sérstaklega fyrir norðan. „Ungu kóparnir sem fæðast á ísnum við Jan Mayen koma til Íslands til að éta loðnu,“ útskýrir hann. Lítill uppsjávarfiskur á borð við loðnu sé uppistaðan í fæðu vöðuselsins, en hann leggi sér einnig til munns annað sem hann finnur, til dæmis ungan þorsk sem sé yfirleitt mikið af í stórum stofnum.
„Þeir hafa meira að segja fundist fyrir sunnan land ef maður horfir aftar í tímann, en nú er allt á hverfanda hveli út af hlýnun jarðar og ísleysi og svona, þannig að þetta getur breyst,“ segir Erlingur.
Enn komi vöðuselur talsvert í fiskinet fyrir norðan þótt áramunur sé á því. „Á öldum áður voru meira að segja stundaðar vöðuselsveiðar á Norðurlandi á bátum. Menn reru og skutu og skutluðu hann.“ Það hafi þó ekki verið hægt nema á ákveðnum tímum. „Menn lærðu á þetta – það var til dæmis sérstaklega mikið um þennan sel þegar hafís var nálægt Íslandi.“
Óvíst hvort vöðuselur hefur kæpt við Ísland
Vöðuselurinn, sem stundum er kallaður Grænlandsselur, kæpir venjulega í mars. „Nú er kæpingin búin og allir selirnir glorhungraðir. Vöðuselurinn er félagsdýr mikið og þeir koma hingað og veiða saman,“ segir Erlingur. Hann dragi nafn sitt af því hversu vel honum líkar að vera í stórum vöðum með öðrum selum – hann sé miklu félagslyndari en landselur, útselur, blöðruselur eða hringanóri.
Hann kemur yfirleitt til Íslands á vorin og er hér yfir sumarið, en fer reyndar annað og leggst á ís til að fara úr hárum, segir Erlingur. Spurður hvort hann hafi einhvern tímann kæpt hér á landi segir Erlingur að til séu sögur um það. „Það hafa fundist hvítir kópar í mars á Melrakkasléttu sem hugsanlega gætu hafa verið vöðuselskópar, það hafa þá kannski einhverjar vöðuselsurtur kæpt þar, en vöðuselur hefur ekki kæpt að staðaldri á Íslandi.“ Einnig séu frásagnir af nýkæptum vöðuselskópum á Breiðafirði og Barðaströndinni.
„Vandamálið í þessu er að landselur kæpir oft snemma, og ef landselskópur er fyrirburi þá er hann lítill eins og vöðuselskópur og ekki heldur búinn að losa sig við hvítu fósturhárin sem gerist venjulega í móðurkviði og er þess vegna hvítur, líka eins og vöðuselskópur,“ segir Erlingur. Því sé mögulegt að frásagnirnar stafi af ruglingi.
https://www.facebook.com/haukurarnar.gunnarsson/videos/10212697138734449/