Æfðu undankomu úr þyrlu í vatni

Deila:

Einn mikilvægasti þátturinn í starfi flugáhafna Landhelgisgæslunnar er þjálfun af ýmsu tagi. Þyrlur LHG fara í nokkur æfingaflug í hverri einustu viku þar sem leit og björgun við ýmsar aðstæður, bæði á sjó og landi, eru æfðar. Sumar aðstæður eru hins vegar þess eðlis að þær er aðeins hægt að æfa í sérstökum tækjum. Dæmi um það er þjálfun í að bjarga sér úr þyrlu sem lendir í vatni samkvæmt frétt á heimasíðu Gæslunnar.

Allar þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar verða að gangast á nokkurra missera fresti undir svokallaða HUET-þjálfun (e. Helicopter Underwater Escape Training) og á það jafnt við um flugmenn, sigmenn, spilmenn og lækna. Markmiðið er eins og áður segir að allir um borð séu undir það búnir að geta komist úr þyrlu sem þarf að lenda í sjó eða á vatni.

Þjálfun er bæði bókleg og verkleg. Í verklega þættinum kemur áhöfnin sér fyrir í þyrlulíkani sem er síðan slakað niður í sundlaug. Fyrst er þetta gert rólega, svo er hraðinn aukinn, því næst er líkaninu velt og í síðustu ferðinni er æfingin gerð í svartamyrkri. Allt er þetta gert til að líkja eftir sem raunverulegustum aðstæðum. Þótt þessi þjálfun geti bjargað mannslífum má gera því skóna að enginn vilji nokkurn tímann þurfa að grípa til hennar.

Nokkrir liðsmenn þyrluáhafna LHG voru nýverið í Aberdeen í Skotlandi, þar sem þjálfunin fer fram. Jóhannes Jóhannesson flugmaður tók við það tækifæri myndir af því sem fram fór. Myndbandið er að finna á YouTube-rás (Opnast í nýjum vafraglugga)  Landhelgisgæslunnar og eins og þar má sjá gekk strákunum vel að koma sér úr „þyrlunni“.

 

Deila: