Veiðar og fiskeldi skila 171 milljón tonna

Deila:

„Á árinu 2016 námu veiðar og fiskeldi á heimsvísu um 171 milljón tonna og þar af voru fiskveiðar um 92 milljónir tonna eða um 54%. Um það bil 88% af þeim 92 milljónum tonna sem veidd voru fengust við úthafsveiðar. Þá var mest veitt af uppsjávarfiski og námu úthafsveiðar á tegundinni 35 milljónum tonna eða um 38% af veiðum á heimsvísu. Næstmest var veitt af botnfiski eða tæp 21 milljón tonna sem nemur um 23% af heildarveiðum. Veiðar á skelfisk námu 14 milljón tonna eða um 15% af heildarveiðum. Fiskveiðar á heimsvísu drógust saman um 1% frá árinu 2015.“ Þetta kemur fram í nýjustu skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveginn. Þar segir ennfremur um veiðar á heimsvísu:

Asía veiðir mest á heimsvísu

„Á árinu 1990 voru fiskveiðar á heimsvísu um 84 milljónir tonna og hafa veiðar því aukist um 10% frá árinu 1990 til ársins 2016. Ef veiðar eru skoðaðar eftir heimsálfum sést að hlutur Asíu er og hefur verið stærstur frá árinu 1990. Asía er með um 55% af fiskveiðum á heimsvísu eða sem nemur 51 milljónum tonna og hefur hlutdeild heimsálfunnar aukist um 13 prósentustig frá árinu 1990. Á eftir Asíu kemur svo Ameríka með 18 milljónir tonna (19%) og Evrópa með 14 milljónir tonna (15%). Á meðan Asía hefur aukið hlutdeild sína í fiskveiðum á heimsvísu hefur hlutdeild Ameríku og Evrópu minnkað. Hlutdeild Ameríku hefur minnkað um 9 prósentustig frá árinu 1990, úr 28% í 19% og hlutdeild Evrópu hefur minnkað um 8 prósentustig á sama tímabili, úr 23% í 15%.

Fiskveiðar drógust saman um 1% hjá 25 stærstu fiskveiðiþjóðum heims á milli ára en fiskveiðar á heimsvísu drógust saman um 0,7%. Í töflu 1 er að finna 25 stærstu fiskveiðiþjóðir í heimi. Kína er stærst með um 18 milljónir tonna eða um 19% af veiðum á heimsvísu. Þar á eftir koma svo Indónesía, Bandaríkin, Indland og Rússland en veiðar þessara fimm stærstu fiskveiðiþjóða heims voru á árinu 2016 samanlagt um 39 milljónir tonna eða rúm 42% af veiðum á heimsvísu. Veiðar dragast saman um 18% hjá Perú en helsta ástæða þess er samdráttur í ansjósuveiðum eftir mikla veiði árið 2015. Síle eykur fiskveiðar sínar um 14% á milli ára en helstu ástæður þess eru góðar veiðar á síld og aukning í ansjósuveiðum. Ísland situr í 19. sæti meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims með um 1,2% hlutdeild á heimsvísu. Ísland hefur verið að færast neðar á þessum lista síðustu ár þar sem aðrar þjóðir hafa aukið veiðar sínar umfram Ísland. Fiskveiðar Íslands dragast saman um 19% á milli ára en fjallað verður nánar um það í kaflanum um íslenskan sjávarútveg.

Veiðar á heimsvísu

Þegar fiskveiðar á heimsvísu eru skoðaðar eftir tegundum sést að mun meira hefur verið veitt af uppsjávarfiski en af botnfiski frá árinu 1990 en um 38% af veiddum fiski á heimsvísu á árinu 2015 er uppsjávarfiskur. Hafa veiðar á botnfiski aukist lítillega frá árinu 1990 eða um tæp 400 þús. tonn (2%) á meðan veiðar á uppsjávarfiski hafa dregist saman um rúmar 3 m. tonna (-8%). Talsvert meiri sveiflur eru í veiðum á uppsjávarfiski á heimsvísu en á botnfiski en þó eru veiðar á uppsjávarfiski mun stöðugri á heimsvísu en á Íslandi. Á árinu 2015 voru veidd um 21 milljón tonn af botnfiski og um 35 milljónir tonn af uppsjávarfiski á heimsvísu.

Rússland stærst í fiskveiðum í Evrópu

Frá árinu 1990 hafa veiðar dregist saman í Evrópu ólíkt því sem átti sér stað á heimsvísu. Frá árinu 1990 til ársins 2016 hafa veiðar í Evrópu dregist saman um 28% og farið úr rétt rúmum 20 milljónum tonna í rúm 14 milljónir tonna. OECD spáir því að veiðar í Evrópu eigi eftir að vera nokkuð stöðugar næstu árin fram til ársins 2026. Í Evrópu er Rússland stærst fiskveiðiþjóða og hefur verið frá árinu 1990. Árið 2016 veiddu Rússar um 4,5 milljónir tonna eða sem nemur 31% af fiskveiðum í Evrópu. Hlutdeild Rússlands í veiðum í Evrópu hefur minnkað frá árinu 1990 en þá voru veiðar Rússa rúmlega 7 milljónir tonna og um 37% af veiðum í Evrópu. Á eftir Rússlandi kemur svo Noregur, Ísland, Spánn og Danmörk en fiskveiðar þessara fimm stærstu fiskveiðiþjóða Evrópu námu um 10 milljónum tonna á árinu 2016 eða um 70% af heildarveiðum í Evrópu. Ísland var þriðja stærsta fiskveiðiþjóð Evrópu m.v. árið 2016 með um 9% hlutdeild af heildarveiðum í Evrópu. Þegar veiði Evrópulandanna er skoðuð með hliðsjón af fjölda íbúa veiðir Ísland mest á hvern íbúa næst á eftir Færeyingum eða um 3,2 tonn á mann.

Í Evrópu hefur skipting veiða á botn- og uppsjávarfiski verið mun jafnari en á heimsvísu. Í Ameríku og Asíu hefur hlutfall veiða á uppsjávarfiski verið langt umfram það sem verið hefur í öðrum heimsálfum. Um 71% allra veiða á uppsjávarfiski á heimsvísu yfir tímabilið hafa átt sér stað í Asíu (45%) og Ameríku (26%). Eins og áður hefur komið fram hafa veiðar almennt dregist saman í Evrópu frá árinu 1990. Þá hafa veiðar á uppsjávarfiski dregist meira saman (36%) en á botnfiski (21%) í Evrópu yfir tímabilið. Á árinu 1990 voru 42% af veiðum á botnfiski á heimsvísu stundaðar í Evrópu en vegna áðurgreinds hefur hlutfallið lækkað niður í 33% á árinu 2015. Þá hefur hlutdeild Evrópuþjóða í veiddum uppsjávarfiski á heimsvísu einnig lækkað úr 23% í 16% yfir sama tímabil.

Norðmenn veiða mest Norðurlandanna

Þróun fiskveiða á Norðurlöndunum hefur fylgt þróun fiskveiða í Evrópu nokkuð þétt frá árinu 1994. Frá árinu 1994 hafa veiðar dregist saman um 1,2 milljónir tonna á Norðurlöndunum en á árinu 2016 voru veiðar þar um 5,5 milljónir tonna. Á tímabilinu drógust veiðar saman hjá flestum Norðurlöndunum en samdrátturinn í veiðum Dana á stóran hlut að máli. Þær hafa dregist saman um rúm milljón tonn frá árinu 1994 eða sem nemur 60%. Veiðar á Norðurlöndum hafa þó farið stigvaxandi frá árinu 2013 en Ísland er eina landið sem hefur ekki verið að auka fiskveiðar sínar á því tímabili. OECD gerir ráð fyrir því að fiskveiðar á Norðurlöndunum haldist nokkuð stöðugar yfir spátímann. Á árinu 2016 voru veiðar Norðmanna um 43% af veiðum á Norðurlöndunum og hefur hlutdeild þeirra aukist um 12% frá árinu 1990, þegar þær voru um 31%. Eins og áður greint gefur til kynna hefur hlutdeild Dana minnkað mest en hún fer úr 28% á árinu 1990 í 16% árið 2016. Ísland veiðir næstmest Norðurlandanna eða um 24% af heildarveiðum þjóðanna. Hefur hlutdeild Íslendinga dregist saman um 5% frá árinu 1990 þegar veiðar þeirra voru um 29%.

Mest veitt af síld

Þegar fiskveiðar á Norðurlöndunum eru skoðaðar eftir helstu tegundum sést að síld hefur að jafnaði verið mest veidda fisktegundin á tímabilinu 1990-2015. Á árinu 2015 var mest veitt af kolmunna en veiðar á honum voru um 1.038 þús. tonn sem nemur um 18% af heildarfiskveiðum Norðurlandanna. Þá hefur veitt magn á kolmunna aukist um 191 þús. tonn eða um 23% á milli ára. Til samanburðar voru veiðar á síld um 829 þús. tonn árið 2015, sem nemur um 15% af heildarfiskveiðum Norðurlandanna og drógust saman um 13% á milli ára. Þá hefur veitt magn af síld aukist um tæp 161 þús. tonn frá árinu 1990 þegar veiðar á síld voru um 667 þús. tonn eða um 13% af heildarfiskveiðum á Norðurlöndunum á þeim tíma. Um helmingur af öllum síldveiðum á Norðurlöndunum voru stundaðar í Noregi og voru Norðmenn stærstir í síldveiðum yfir allt tímabilið.

Á eftir kolmunna og síld koma svo þorskur og makríll sem á árinu 2015 voru samanlagt um 1,3 milljónir tonna eða 24% af heildarfiskveiðum á Norðurlöndunum. Fjórar mest veiddu tegundir á Norðurlöndum nema því um 57% af heildarveiðum þjóðanna. Eins og sjá má á mynd 14 hafa sveiflur verið miklar í veiddu magni á kolmunna en veiðar á honum hafa verið á bilinu 47 þús. tonn til 1.835 þús. tonn á árunum 1990-2015. Þessi þróun átti sér stað á öllum Norðurlöndunum en Norðmenn veiða mest af kolmunna en þar hefur um helmingur alls kolmunna verið veiddur yfir tímabilið. Ásamt kolmunna hafa sveiflur í loðnuveiðum verið nokkuð miklar yfir tímabilið en sú þróun litast af loðnuveiðum á Íslandi þar sem um 70% af heildarloðnuafla er veiddur þar.“

Deila: