Fiskeldið spennandi atvinnugrein í örum vexti

Deila:

„Það er virkilega spennandi að vinna í þessari atvinnugrein, sem er í miklum vexti og sinnir sjálfbærri framleiðslu hágæða matvæla fyrir ört stækkandi heim og er með eitt lægsta kolefnisfótspor við framleiðslu dýrapróteins sem fyrirfinnst. Tækifærin eru ótalmörg og margt í gangi sem gaman er að taka þátt í,“ segir Rúnar Ingi Pétursson framleiðslustjóri hjá Arnarlaxi á Bíldudal. Sjávarútvegsáhuginn blundaði!

Rúnar Ingi fæddist á Akureyri, ólst þar upp og komst ungur að árum í kynni við sjávarútveginn enda rík hefð í bænum í þeirri atvinnugrein. „Áhugi fyrir sjávarútvegi blundaði alltaf í mér og kom snemma fram,“ segir hann en afi hans, Filip Þór Höskuldsson, var til fjölda ára skipstjóri og var óþreytandi að fræða barnabarnið um allt sem tengist sjávarútvegi. „Öll okkar samtöl snérust á einhvern hátt um sjávarútveg og með aldrinum má segja að áhuginn hafi aukist.“

Rúnar Ingi segir að það hafi reynst sér nokkuð erfitt að taka ákvörðun um hvert stefna skyldi þegar hann fór í framhaldsskóla. Hann hafði ekki endilega löngun til að feta í fótspor afa síns og gerast skipstjóri, „en var alltaf með augun opin fyrir því að starfa við sjávarútveg eða í tengdum greinum,“ segir hann. Hann skráði sig til að byrja með í rafvirkjun við Verkmenntaskólann á Akureyri, „en sá strax eftir eina önn að mig langaði alls ekki að verða rafvirki.“

Móðurbróðir hans er sjávarútvegsfræðingur og hafði Rúnar Ingi kynnst spennandi störfum sem hann sinnti í sínum uppvexti sem hafði einnig þau áhrif að áhuginn fyrir greininni jókst ef eitthvað er. „Ég ákvað því að stefna á að verða sjávarútvegsfræðingur og breytti um kúrs í VMA, fór í bóknám og lauk stúdentsprófi árið 2014.“

Ítarlega er rætt við Rúnar Inga í nýju tölublaði Sóknarfæris.

Deila: