Deilistofnar uppsjávarfisks skila miklum afla
Afli íslenskra fiskiskipa á nýliðnu ári úr deilistofnum uppsjávarfisks var 668.613 tonn. Loðnukvótinn kláraðist á síðustu vertíð, en óveidd eru um 23.000 tonn af kolmunna, tæp 17.000 af makríl og 13.000 tonn af norsk-íslenskri síld. Allt rúmast það innan heimilda til flutnings milli ára. Fjögur aflahæstu skipin eru samtals með um 200.000 tonna afla.
Ef íslenska síldin er tekin inn í dæmið veiddust um 60.000 tonn af henni á síðasta fiskveiðiári og kvóti þessa fiskveiðiárs er um 39.600 tonn og aflinn þegar kominn í tæp 29.000 tonn fyrir áramótin. Því verður afli allra uppsjávartegunda eitthvað meiri á heildina litið, sennilega yfir 700.000 tonn.
160.000 tonn af makríl
Þegar litið er á hvern deilistofn fyrir sig er hentugt að byrja á makrílnum. Vertíðin hófst seint og veiðin var sveiflukennd. Aflinn er tæp 160.000 tonn, en í fyrra veiddust 170.000 tonn af makríl. Leyfilegur heildarafli nú er 176.000 tonn. Því er fyrirsjáanlegt að eitthvað mun færast yfir á næsta fiskveiðiár. Mestur hefur makrílaflinn á undanförnum árum orðið um 173.000 tonn, en það var árið 2014. Annars hefur aflinn síðustu ár verið nokkru minni.
Miklar tilfærslur veiðiheimilda milli skipa hafa orðið hverri vertíð á síðustu árum eftir að flytja mátti heimildir milli skipa, sem ekki mátti áður nema að mjög takmörkuðu leyti. Það gerir veiðarnar hagkvæmari, þegar færri skip sækja svipaðan afla og fleiri áður.
Svokölluð aflareynsluskip tóku að venju megnið af aflanum á vertíðinni. Alls lönduðu þau 139.000 tonnum að þessu sinni. Vinnsluskipin tóku 14.500 tonn en ekkert skip úr flokknum skip án vinnslu fór á makríl í ár, en þar fengu alls 65 skip og bátar úthlutað einhverjum heimildum. Allar heimildir þeirra, um 7.200 tonn voru fluttar yfir á aflareynsluskipin. Sömuleiðis voru 13.600 tonn flutt af vinnsluskipunum yfir á aflareynsluskipin.
Aðeins fjögur vinnsluskip stunduðu veiðarnar að þessu sinni, en 22 fengu úthlutað heimildum. Af þeim var Kristína EA efst með um 8.200 tonn og næst kom Brimnes með tæp 5.000 tonn. Togarar Þorbjarnar í Grindavík, Hrafn og Hrafn Sveinbjarnarson tóku samtals um 1.350 tonn.
Aflareynsluskipin voru 20 sem lönduðu afla. Þeirra aflahæst voru HB Grandaskipin Víkingur og Venus með ríflega 11.000 hvort skip. Næst kom Samherjaskipið Vilhelm Þorsteinsson var með 10.300 tonn í þriðja sætinu. Venus og Víkingur lönduðu afla sínum ferskum til vinnslu á Vopnafirði, en Vilhelm frysti aflann að mestu um borð og landaði í Neskaupstað.
Lítill afli smábáta
Makrílveiðar smábáta ollu vonbrigðum í sumar. Veiðin varð mun minni en árið áður og verð lækkaði sömuleiðis og reglugerð um makrílveiðar var óbreytt frá árinu áður. Nú skiluðu 54 bátar um 4.800 tonna afla, en í fyrra lönduðu 50 bátar 8.400 tonnum. Þrír aflahæstu bátarnir voru Fjóla GK með 280 tonn, Brynja SH með 274 tonn og Andey GK með 263 tonn.
Makríllin veiðist að mestu leyti í íslensku lögsögunni og á alþjóðlegu hafsvæði utan hennar.
Kolmunninn veiddur við Færeyjar
21 skip hafa stundað kolmunnaveiðar að einhverju marki. Aflinn hefur að mestu leyti fengist innan lögsögu Færeyja. Hitt hefur fengist innan íslensku lögsögunnar. Aflahæstu skipin á kolmunnanum eru Víkingur AK með 21.323 tonn, Börkur NK með 20.718 tonn og Venus NS með 20.322. Þá koma Bjarni Ólafsson AK með 18.508 tonn og Beitir NK 18.285.
Heildaraflinn nú er um 224.360 tonn en leyfilegur heildarafli er 247.300 tonn. Eftir eru því óveidd um 23.000 tonn, sem verða væntanlega flutt yfir á þetta ár. Á síðustu árum hefur kolmunnaaflinn mestur orðið um 215.000 tonn, sem var 2015. Árin þar á undan var veiðin mun minni og nánast engin 2011 þegar aðeins tæp 6.000 tonn bárust á land.
Síldin veidd innan lögsögu að mestu
Afli af norsk-íslensku síldinni er nú orðinn um 88.587 tonn, en leyfilegur heildarafli er tæp 102.000 tonn. Því eru enn óveidd um 13.000 tonn. Undanfarin ár hefur síldaraflinn verið meiri að undanskildu árinu 2015. Þá var landað um 42.700 tonnum af norsk-íslenskri síld. Á þessum áratug varð aflinn mestur um 151.000 tonn árið 2011. Aflinn hefur að mestu leyti verið tekinn innan íslensku lögsögunnar. 18 skip hafa stundað beinar síldveiðar og er Beitir NK þar með mestan afla eða um 9.500 tonn. Næstur kemur Vilhelm Þorsteinsson EA með um 7.000 tonn, þá Börkur NK með 6.857 tonn og síðan Venus NS og Víkingur AK með 6.500 tonn hvort skip.
Loðnukvótinn allur tekinn
Mikil óvissa var með loðnuveiðar í upphafi árs en loks var gefinn út heildarkvóti upp á um 300.000 tonn. Hlutur íslenskra skipa úr því varð um 197.000 tonn og náðist kvótinn allur eftir að verkfalli lauk í febrúar. Aflahæsta skipið á loðnunni var Heimaey VE með 14.550 tonn. Næst kom Venus NS með 14.300 og þá Börkur NK með 13.500 tonn.
22.000 tonn að meðaltali?
Það er athyglisvert að tiltölulega fá skip eru að taka þennan mikla afla en það eru mest sömu skipin, sem stunda þessar veiðar allar. Það eru því innan við 30 skip, sem voru á síðasta ári að taka tæplega 670.00 tonn af uppsjávarfiski úr deilistofnum, norsk-íslenskri síld, makríl, kolmunna og loðnu. Þegar íslenska síldin bætist við verður magnið enn meira. Meðaltalið gæti verið um 22.000 tonn á hvert skip, en það segir ekki alla söguna. Sum skipanna frysta aflann um borð og skila því minni en verðmætari afla að landi en hin, sem landa aflanum ferskum til vinnslu í landi. Vinnsluskipin eru háð frystigetu um borð og því ganga veiðar þeirra hægar en hinna.
Fjögur skip skera sig úr í þessum afkastamikla hópi. Þau landa öll afla sínum ferskum til vinnslu í landi. Þetta eru skip HB Granda og Síldarvinnslunnar. Venus NS er aflahæstur allra skipa sem veiðar stunda úr deilistofnunum fjórum, með 52.493 tonn. Næstur kemur Víkingur AK með 51.255 tonn, þá Börkur NK með 29.222 tonn og loks Beitir NK með 47.904 tonn. Samtals um 200.000 tonn.