Þokkalegasta kropp hjá Blængi

Deila:

Nú fyrir sjómannadag kom frystitogarinn Blængur NK til Neskaupstaðar að afloknum 28 daga túr. Sigurður Hörður Kristjánsson var skipstjóri fyrri hluta túrsins en Bjarni Ólafur Hjálmarsson síðari hlutann.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi um túrinn við Bjarna Ólaf og var hann ágætlega sáttur við hann. „Það er ekki hægt annað en að vera sáttur við þennan túr. Að vísu mun veður hafa verið heldur leiðinlegt áður en ég kom um borð en ég upplifði hins vegar algera bongóblíðu allan síðari hluta túrsins. Að þessu sinni var lögð megináhersla á grálúðuveiði og segja má að það hafi verið þokkalegasta kropp. Aflinn reyndist vera 550 tonn að verðmæti 316 milljónir (FOB). Lagt var upp í túrinn frá Hafnarfirði og allan tímann var veitt á Hampiðjutorginu og í Víkurálnum,“ segir Bjarni Ólafur.

Ráðgert er að Blængur haldi á ný til veiða í dag. Lögð verður áhersla á að veiða grálúðu og ufsa í veiðiferðinni og áætlað er að hún taki 36 daga.
Blængur NK. Ljósm. Hafþór Hreiðarsson

Deila: