Síðustu dagar við Færeyjar ágætir

Deila:

Að undanförnu hefur verið heldur tregt í kolmunnanum, en síðustu daga hefur þó verið þokkalegasta veiði. Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK, sagði í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar í gær, að síðustu dagarnir á miðunum við Færeyjar hafi verið ágætir.

„Við erum á leiðinni til Seyðisfjarðar með 1.750 tonn og gerum ráð fyrir að verða þar kl. 4 í nótt. Við fengum þennan afla í fjórum holum, sem er býsna gott miðað við veiðina að undanförnu. Í fyrsta holi fengum við 550 tonn eftir að hafa togað í 18 tíma. Í hinum holunum þremur fengum við 300-450 tonn og toguðum í 8-12 tíma. Nú er bara að vona að framhald verði á þessari veiði,“ sagði Runólfur.

Pólska kolmunnaskipið Janus var einnig á leið til Seyðisfjarðar með um 850 tonn. Það var væntanlegt síðar í gær.
Margrét EA landaði kolmunna í Neskaupstað í fyrrinótt. Afli skipsins var tæplega 2.200 tonn.

 

 

Deila: