Sækja rækjuna norður fyrir Svalbarða
Íslendingar sækja sjóinn víða um heim, bæði á íslenskum skipum og erlendum. Fjórir togarar skráðir í Eistlandi í eigu Íslendinga stunda nú meðal annars rækjuveiðar í Barentshafi. Skipstjórarnir á þeim eru íslenskir og einn þeirra er Vestmanneyingurinn Viktor Scheving Ingvarsson.
Viktor er skipstjóri á rækjutogaranum Steffano sem áður hét Steffen C og þar áður Pétur Jónsson RE. Hann er gerður út af Reyktal þjónustu, sem einnig gerir út togarana Reval Viking, Ontika og Taurus, sem eru skráðir í Eistlandi og veiða úr kvótum ESB, og rækjubátinn Dag SK. Fyrirtækið rekur einnig rækjuverksmiðjuna Dögun á Sauðárkróki.
„Við erum mest á rækju en erum að taka smávegis af botnfiski líka, þorsk, grálúðu og kola, en rækjuveiðarnar eru okkar aðalútgerð, segir Viktor.“
Búinn að vera hjá útgerðinni í 10 ár
Reyktal keypti Steffano fyrir rúmu ári síðan frá Grænlandi og hefur Viktor verið með hann síðan á móti Skúla Elíassyni. Hann er annars búinn að vera hjá útgerðinni í 10 ár, áður á Ontiku og Eldborg. Þar áður var hann á Andvara. „Ég byrjaði á rækjuveiðunum á Flæmska hattinum og síðan færðum við okkur til norðausturs yfir í Barentshafið og við Svalbarða. Við erum að sækja rækjuna langt norður fyrir Svalbarða á haustin, alveg norður fyrir 80. breiddargráðu. Það hefur oft verið ágætis veiði í kantinum fyrir norðan Svalbarða og í kringum eyjarnar. Frá því í febrúar mars og fram í október erum við í Smugunni og í Hopen-dýpi. Þar erum við mestan hluta ársins og þar höfum við auk rækjunnar verið að veiða þorsk og grálúðu.“
Viktor segir að gera megi ráð fyrir að taka á skipið 3.000 til 4.000 tonn af rækju á ári, en nokkrar tafir hafi orðið frá veiðum á þessu fyrsta ári. Skipið er öflugt og er með tvö troll undir og afkastameira en skipin, sem hann var á áður. Steffano var sérhannaður fyrir rækjuveiðar frá upphafi, en Grænlendingarnir voru líka með hann á makríl. „Það er allur búnaður fyrir rækjuvinnslu um borð, meðal annars sérstök Japanslína, sem við höfum reyndar ekki notað enn. Við reynum þó að sjóða eins mikið af rækjunni og við getum en hitt er fryst sem iðnaðarrækja.“
35 daga túrar
Áhöfnin telur í kringum 20 manns eftir því hvaða veiðar eru stundaðar. „Í Smugunni er meira um að vera og þá eru 21 til 22 um borð í einu. Skipstjórarnir eru Íslendingar og sömuleiðis yfirvélstjórinn. Annars eru flestir úr áhöfninni Eistar og einhverjir Úkraínumenn og reyndar einn og einn frá öðrum Eystrasaltslöndum. Við erum yfirleitt úti í 35 daga í einu, það fer bæði eftir aflabrögðum og olíutöku, en stundum tökum við olíu úti á sjó. Yfirleitt er landað í Tromsö í Noregi. Stundum er farið á veiðar við Austur-Grænland og þá er landað á Íslandi. Ef verið er að veiða við Vestur-Grænland er landað þar og þegar veitt var á Flæmska hattinum lönduðum við í Kanada, en veiðisvæðið þar er nú lokað. Vonandi verður það opnað aftur.
Iðnaðarrækjan er yfirleitt seld á markaði en eitthvað af henni fer í vinnslu hjá Dögun á Sauðárkróki. Við höfum ekkert verið að vinna á Japan núna, en mikið af suðurækjunni fer til Kína.
Fyrir nokkuð mörgum árum var mikil veiði á Flæmska hattinum, en fyrir fáum árum hrundi veiðin og svæðinu var lokað. Sennilega hefur veiðin hrunið vegna breyttra skilyrða í hafinu. Við Grænland austanmegin kom upp einhver veiði síðasta vetur, en fiskiríið þar er nokkuð gloppótt. Eitt árið getur verið fínt en það næsta nærri ekkert. Vestanmegin er veiði stöðugri og sveiflurnar minni. Veiðin hefur verið frekar „stabíl“ í Smugunni undanfarin ár þó að alltaf séu einhverjar sveiflur. Árið í fyrra var frekar lélegt en árið í ár er miklu betra, bara gott sem kom skemmtilega á óvart. Fyrir norðan Svalbarða var mjög rólegt í fyrrahaust, en við vonum að nú verði þar sama þróun og í Smugunni núna og veiðin verði meiri í ár en í fyrra,“ segir Viktor.
Fá mikið af draugagildrum í trollið
Hann segir að fyrir tveimur árum hafi verið mikið um krabbabáta í Smugunni, en þeir veiða í gildrur. Fyrir vikið var erfiðara að stunda togveiðar á svæðinu. „Þeim var svo bannað að vera þarna fyrir ári síðan og þá komumst við um allt og það er auðvitað betra fyrir veiðarnar. Það hefur verið talað um að veiðar í krabbagildrur séu mjög vistvænar, en við erum ekki sammála því. Við erum ennþá að fiska upp draugagildrur um allt á þessu svæði. Þær eru fullar af fiski og eru enn að veiða þó bátarnir hafi farið burt fyrir meira en ári. Það virðist sem sumir bátarnir hafi hreinlega skilið gildrurnar eftir þegar veiðunum var hætt, eða þeir tapað svona miklu af þeim og ekki hirt um að reyna að ná þeim upp aftur. Við erum að koma með hundruð af gildrum eftir túrinn. Við erum búnir að hreinsa svæði nokkuð vel, en erum samt enn að fá hrúgurnar af þessu. Þetta voru mest bátar frá Rússlandi og Noregi.“
Íslendingarnir taka túrana til skiptis, einn úti og næsti í fríi. Viktor segir að misjafnt sé hvernig aðrir í áhöfn vilji hafa það. Sumir taki tvo túra og tvo í frí og jafnvel þrjá og þrjá. Svo séu um borð menn sem séu þrír um störf, svokallaðir trollmeistarar. Þeir skipta á sig túrunum og taka tvo túra í beit og einn í frí. Þetta sé bara eins og þeir vilja hafa það.
Byrjaði 12 ára í fiski
Viktor er frá Vestmannaeyjum og byrjaði í fiskvinnslu 12 ára með skóla eins og gekk á þeim tíma. Svo fór hann rétt fyrir tvítugt á sjóinn og er búinn að vera þar síðan með einhverjum smástoppum. „Ég byrjaði á bátum frá Eyjum og fór síðan í Stýrimannaskólann 1990 og að prófi loknu hef ég að mestu verið stýrimaður og skipstjóri á togbátum og togurum. Ég var lengi hjá Jóhanni Halldórssyni á Andvara og á Suðurey, sem hann átti líka.“
Fjölskyldan er nú að flytja búferlum til Spánar en það breytir litlu fyrir Viktor. Hann þarf hvort eð er alltaf að fljúga til Noregs til að fara um borð og þaðan aftur heim. Hvort heima er á Íslandi eða Spáni breytir litlu.
Betra veður í Barentshafinu
Viktor segir að hann kunni þessum veiðum og fyrirkomulagi mjög vel. Mjög gaman sé á þessum veiðum nema þegar eitthvað bras sé í gangi eða veiðin lítil. „Sjórinn er í sjálfu sér alltaf eins, en í Barentshafinu er betra veður yfirleitt heldur en á öðrum veiðisvæðum. Flæmski hatturinn er mjög leiðinlegur á veturna og veður geta orðið slæm á Grænlandssundi. Við lentum til að mynda í slæmri ísingu á Andvara á Miklabanka á leið til hafnar í Kanada. Í Barentshafinu eru meiri stillur og ég hef haft mjög gaman af því að fiska þarna norðurfrá. Ég hef bara gaman af þessu starfi yfirleitt. Auðvitað fylgja þessu óvæntar uppákomur eða jafnvel slys og það er auðvitað ekkert skemmtilegt við það, en þegar allt gengur sinn gang er bara gaman að takast á við þetta.
Það er mjög sérstakt að vera þarna norðurfrá, bæði á veturna og sumrin. Á sumrin er náttúrulega bjart allan sólarhringinn og svolítið sérstakt að sjá þegar snjóar þar um hásumarið, því það er kalt þó bjart sé og sólskin um miðnættið. Á veturna er myrkur allan sólarhringinn fyrir norðan Svalbarða. Þá er betra að túrarnir séu ekki of langir. Þá eru reyndar stundum minna fiskirí og reynt að teygja túrana. Auðvitað er alltaf allt í lagi þegar nóg fiskirí er, en þegar tregt er getur verið erfitt að horfa stöðugt út í myrkrið. Öfgarnar þarna á milli eru miklar.
Viktor segir að þegar verið sé svona norðarlega þurfi menn að glíma við hafísinn, en skipið er sérstaklega styrkt til veiða við slíkar aðstæður. „Það getur verið erfitt þá að berjast við að komast á miðin og yfirgefa svæðið aftur. Það þarf oft að sæta lagi og ekki allir togarar sem geti tekist á við ísinn eins og þessi,“ segir Viktor Scheving Ingvarsson.
Að vinna með Eistunum
„Þetta er spurning sem að maður fær stundum „hvernig er að vinna með Eistunum,“ segir Viktor. „Hún getur verið tvíræð þessi spurning. En okkur hefur yfirleitt gengið mjög vel að vinna saman, Eistum og Íslendingum um borð í þessum togurum. Það er auðvitað munur á vinnubrögðum hjá þessum þjóðum en það má segja að með tímanum höfum við mæst á miðri leið.
Tungumálaörðuleikar eru þó nokkrir og ég veit ekki hvað oft ég hef beðið einhvern úr áhöfninni að gera eitthvað. Það er kinkað kolli og skilningurinn skín úr andlitinu fyrir framan mann. Svo er farið af stað og gert eitthvað allt annað en maður var að biðja um. Það er gott að vera frekar rólegur á þessum stundum, taka þessu af æðruleysi og anda með nefinu. En eitt verður maður að segja um þá, að þeir eru góðir sjómenn.
Kokkaríið er auðvitað öðruvísi en við eigum að venjast. Það eru einfaldlega aðrar matarvenjur hjá þeim en okkur eins og gengur. Til dæmis eru oft heilu hvítlaukarnir í skál á borðinu. Þeir sem eru hvað harðastir í því að naga hvítlaukinn eru ekki eins góðir gestir í brúnni og aðrir. Ég hef heyrt marga Íslendinga kvarta yfir fæðinu á þessum skipum. Þeir sem að endast í þessu starfi sætta sig við að matarmenningin er önnur og tækla það þannig að ef að áhöfnin er ánægð með kokkinn þá er allt í himnalagi.“
Viðtalið við Viktor birtist fyrst í áttunda tölublaði Ægis nú í september.