Uppsafnaður úrgangur frá laxeldi fækkar botndýrum

Deila:

Laxeldi Arnarlax við Hlaðseyri í Patreksfirði hefur verið slegið af og fiskur verður ekki settur í kvíarnar. Uppsafnaður lífrænn úrgangur mikill og flyst með straumum inn fjörðinn. Botndýralíf er fátækara inni í firðinum og við kvíar sökum lífræns úrgangs. Búið er að slátra fiski úr kvíunum og þær verða fluttar annað samkvæmt frétt í Fréttablaðinu í dag.

Botndýralíf í Patreksfirði hefur tekið miklum breytingum vegna uppsafnaðs lífræns úrgangs frá laxeldi við Hlaðseyri. Sýnatökur síðastliðinn vetur benda til mikillar uppsöfnunar lífræns úrgangs sem berst síðan með straumum inn fjörðinn. Brennisteinsfnykur var af þeim setlögum sem rannsökuð voru. Um 3.500 tonn voru í kvíunum þegar mest var. Arnarlax ætlar að færa kví- arnar annað.

Arnarlax óskaði eftir botnsýnatöku við Hlaðseyri í Patreksfirði á síðasta ári og vann Náttúrustofa Vestfjarða rannsóknina. Fyrirtækið var að reyna að fá alþjóðlega ASCvottun sem er vottun fyrir ábyrgt og sjálfbært fiskeldi í sjó. Fyrirtækið stóðst ekki kröfur staðalsins. Svæðið sem kannað var samanstóð af tíu kvíum, samtals rúmum fimm hundruð metrum í þvermál.

Í niðurstöðum sýnatökunnar segir að dreifing lífræns úrgangs hafi ekki verið jöfn umhverfis kvíarnar og að brennisteinslykt hafi verið af setlögum sem tekin voru upp úr sjó. Brennisteinslykt gefur til kynna uppsöfnun lífræns úrgangs við kvíarnar og umhverfis þær. Einnig kemur fram að straumur virtist flytja lífrænan úrgang inn fjörðinn í stað þess að ýta honum út fjörðinn. Ef áfram heldur sem horfir mun lífrænn úrgangur safnast saman innar í Patreksfirði og valda frekari mengun þar. Einnig kom fram mikil einsleitni í botndýraflóru við sumar kvíar og innst í firðinum.

„Þegar botndýrasamfélög í þessari athugun eru borin saman við þau sem fundust við athuganir sem gerðar voru áður en fiskeldi byrjaði sést að margar tegundir finnast ekki lengur á fiskeldissvæðinu,“ segir í skýrslunni. „Þetta staðfestir niðurstöður hvíldarsýnatöku sem bentu til að svæðið hefði ekki fengið nógan tíma til að jafna sig eftir síðasta eldistímabil.“

Kristian Matthíasson, forstjóri Arnarlax, segir það á hreinu að Arnarlax muni ekki setja út fisk aftur á þessum stað. Kvíarnar verði færðar. „Við erum búin að slátra úr kvíunum og munum svo setja kvíarnar annað. Þessi staðsetning uppfyllir ekki þau skilyrði sem við setjum umhverfinu okkar,“ segir Kristian.

Deila: