Fiskeldisuppbygging á hraða snigilsins

Deila:

„Einhvers staðar sá ég eða heyrði að það sé þekkt aðferð í áróðursfræðunum að endurtaka sömu vitleysuna nógu oft þar til menn fara að trúa henni. Ætla mætti að leiðarahöfundur Viðskiptablaðsins hafi orðið fórnarlamb slíkrar síbylju, þegar hann segir: „Það er of mikið í húfi til þess að leyfa stjórnlausan vöxt laxeldis á Íslandi.” Ekkert gæti nefnilega verið fjær öllum sanni. Uppbygging laxeldis er fjarri því stjórnlaus. Sannleikurinn er þvert á móti sá sá að hún lýtur ströngum lögum og reglum, hefur gengið hægt fyrir sig og fyrirsjáanlegt er að á næstu 5 árum verði laxeldisframleiðsla á Íslandi ákaflega takmörkuð. Það má því með sanni segja, að gagnstætt því sem oft er haldið fram, fer uppbygging fiskeldisins fram á hraða snigilsins.“ Svo skrifar Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva í pistli á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva. Þar segir hann ennfremur.

Varúðarnálgun
Hér á landi hefur verið beitt sérstakri varúðarnálgun sem felst í því að allt frá árinu 2004 hefur fiskeldi ekki verið leyft á stærstum hluta strandlengjunnar. Einvörðungu er heimilt að ala fisk í sjókvíum á Vestfjörðum, Eyjafirði og hluta Austfjarða.
Fiskeldi á Íslandi lýtur gríðarlega ströngum umhverfiskröfum. Þær voru hertar með nýjum lögum frá árinu 2014. Reynslan sýnir að langur líður langur tími frá því að fyrirtæki sækja um leyfi til starfsemi sinnar og þar til þau fást. Eftir það líða enn ár þar til að framleiðsla getur hafist.
Til þess að varpa ljósi á þá umgjörð sem hið opinbera, löggjafinn og stjórnsýslan hafa sett utan um þessa atvinnugrein er nauðsynlegt að rekja það í nokkru máli.
Burðarþolsmat er forsendan
Leyfaferlið hefst með lögbundnu burðarþolsmati Hafrannsóknastofnunarinnar. Tilgangur þess er meðal annars að leiða fram hversu mikinn lífmassa sé hægt að ala upp í sjókvíum án þess að það raski lífkerfi viðkomandi fjarða. Fram hefur komið í þessum áætlunum að beitt er svo kallaðri varúðarnálgun. Þ.e stuðst er við mat sem byggir á mati á burðarþoli viðkomandi fjarða við verstu mögulegu náttúrulegu aðstæður. Tekið skal fram að þetta burðarþolsmat er að öllu leyti greitt af Umhverfissjóði sjókvíaeldis sem fyrirtækin fjármagna skv. nýju lögunum um fiskeldi frá árinu 2014.
Ítarlegt umhverfismat
Fyrst eftir að burðarþolsmatinu lýkur tekur við næsti kafli. Umhverfismat sem Skipulagsstofnun framkvæmir á grundvelli laga um umhverfismat. Fyrirtækin leggja fram frummatsskýrslu. Aflað er mikilla gagna og leitast við að svara spurningum er lúta að umhverfisaðstæðum. Lögin um umhverfismat opna leiðir mjög margra til þess að gera athugasemdir eða leggja fram spurningar í umhverfismatsferlinu. Reynslan sýnir að sú er og reynslan. Bregðast þarf við þessum spurningum/athugasemdum og kallar það oft á mikla gagnaöflun og ítarleg svör. Fyrst að þessu loknu gefur Skipulagsstofnun út álit sitt. Að því fengnu hefst nýr kafli við undirbúning málsins.
Aðkoma MAST og Umhverfisstofnunar
Til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar. Matvælastofnun skal framsenda umsókn um starfsleyfi fyrir eldi ferskvatns- og sjávarlífvera til Umhverfisstofnunar til meðferðar. Umsóknir um starfsleyfi og rekstrarleyfi skal afgreiða innan sex mánaða frá því að þær berast. Matvælastofnun skal tilkynna umsækjanda hvort umsókn telst fullnægjandi innan mánaðar frá því að umsóknin berst stofnuninni. Á þessu stigi eru einnig kæruleiðir. Umhverfisstofnun auglýsir starfsleyfið og á þeim tíma er unnt að koma að athugasemdum. Skemmst er frá því að segja að aldrei hefur það gerst að umsóknirnar séu afgreiddar innan hins lögbundna tímafrests. Þegar Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi skal það sent Matvælastofnun. Ef umsóknir eru samþykktar skulu starfsleyfi og rekstrarleyfi afhent umsækjanda samtímis.
Lítil dæmisaga úr raunveruleikanum
Þessar staðreyndir um leyfafyrirkomulagið ríma aldeilis ekki við staðleysur leiðarahöfundar um stjórnlausa uppbyggingu fiskeldis. Dæmi eru um að leyfisferli hafi tekið allt að fimm árum. Annað dæmi má nefna. Fyrirtækið Arnarlax á Bíldudal var stofnað árið 2009. Það var fyrst í fyrra, sjö árum eftir stofnun fyrirtækisins, sem laxeldisframleiðsla þess hófst og stóð það þá að baki langstærstum hluta laxeldisframleiðslu í sjó hér við land á síðasta ári, eða um sex þúsundum tonna. Til samanburðar var laxaslátrun í Færeyjum um 80 þúsund tonn og um 160 þúsund tonn í Skotlandi, sem einnig státar af villtum laxastofnum og áform yfirvalda þar í landi eru þau að tvöfalda þá framleiðslu. Laxeldi í Noregi nemur um 1,2 til 1,3 milljónum tonna.
Uppbygging á hraða snigilsins
Ekki eru líkur á að framleiðslumagn á laxi hérlendis fari yfir 25 þúsund tonn fyrr en eftir 4 til 5 ár í fyrsta lagi. Fyrir því eru margvíslegar ástæður. Reynslan sýnir að mjög langan tíma tekur að afla til þess heimilda hjá viðeigandi stofnunum. Seiðaframleiðslan í landinu annar ekki nema um 25 þúsund tonna framleiðslu. Ljóst er því að frekari vöxtur verður ekki nema að farið sé í verulega fjárfestingu á því sviði. Slíkt mun ekki gerast nema fyrir liggi leyfi til eldisframleiðslu. Fyrst eftir að leyfi hafa fengis getur hafist uppbygging seiðastöðva og að því búnu seiðaframleiðsla og framleiðsla á laxinum.
Það er því sérkennilegt að kallað sé eftir því í leiðara blaðsins að hægt sé á uppbygingu fiskeldis hér á landi. Uppbygging þessarar atvinnugreinar gengur nú þegar ákaflega hægt fyrir sig og vandséð hvernig hægja megi á því sem núna gengur fyrir sig með hraða snigilsins.

 

 

Deila: