150 milljónir til heilbrigðismála á sex árum
Í tilefni af 60 ára afmæli Síldarvinnslunnar 11. desember sl. var tilkynnt um ýmsa samfélagsstyrki fyrirtækisins. Á meðal þeirra var sjö milljón króna styrkur til Umdæmissjúkrahúss Austurlands (Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað) til kaupa á nýju sérhæfðu hjartaómskoðunartæki. Afhending þessa styrks leiddi til þess að vert þótti að athuga hve Síldarvinnslan ásamt Samvinnufélagi útgerðarmanna og Olíusamlagi útvegsmanna hefði styrkt sjúkrahúsið og heilbrigðismálefni mikið á sl. sex árum. Til skýringar skal þess getið að Samvinnufélagið og Olíusamlagið eiga hluti í Síldarvinnslunni og nýta drjúgan hluta af arði hlutabréfanna til að styrkja samfélagsleg málefni. Svo segir í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir ennfremur:
„Á sl. sex árum hafa umrædd fyrirtæki annars vegar styrkt sjúkrahúsið til tækjakaupa og hins vegar lagt fram fjármuni til endurbóta á Norðfjarðarflugvelli en flugvöllurinn skiptir afar miklu máli fyrir sjúkraflug og er fyrst og fremst nýttur til slíks flugs. Ekkert fer á milli mála að umræddir styrkir hafa stuðlað að stórauknu öryggi Austfirðinga og gert sjúkrahúsið í alla staði hæfara til að sinna hinu mikilvæga hlutverki sínu. Hvað varðar framlög til tækjakaupa hafa fyrirtækin haft náið samráð við stjórnendur sjúkrahússins og Hollvinasamtök þess.
Framlög Síldarvinnslunnar og Samvinnufélagsins til endurbóta á flugvellinum voru samtals 50 milljónir króna en ríkið og sveitarfélagið Fjarðabyggð lögðu einnig af mörkum fjármuni til framkvæmdarinnar. Til viðbótar stóð Samvinnufélag útgerðarmanna, sveitarfélagið og verktakafyrirtækið Héraðsverk straum af kostnaði við gerð flughlaðsins. Framkvæmdum við völlinn lauk sl. sumar og var hann endurvígður í ágústmánuði. Til viðbótar kostaði Samvinnufélagið lýsingu á völlinn á árinu 2012. Fyrir utan framlag til endurbóta á flugvellinum hefur Síldarvinnslan styrkt sjúkrahúsið um 45 milljónir króna til tækjakaupa á sl. sex árum.
Árlega hefur Samvinnufélagið styrkt sjúkrahúsið til kaupa á mikilvægum tækjum og búnaði og eins hefur Olíusamlagið styrkt það til endurnýjunar á öllum sjúkrarúmum. Samtals hefur Samvinnufélagið veitt styrki til kaupa á tækjum að upphæð 45 milljónir króna á sl. sex árum og Olíusamlagið hefur veitt slíka styrki að upphæð 12,3 milljónir.
Þegar allt er saman tekið kemur í ljós að þessi þrjú fyrirtæki hafa veitt styrki til heilbrigðismála að upphæð rúmlega 150 milljónir króna á umræddu sex ára tímabili. Heimasíðan sneri sér til Guðjóns Haukssonar forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands og spurði hvaða máli þessir styrkir skiptu fyrir stofnunina. Guðjón sagði að sá stuðningur sem Heilbrigðisstofnun Austurlands hefði notið frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum væri algjörlega ómetanlegur og þar hefðu ofangreind fyrirtæki verið í fararbroddi. „Það er staðreynd að ef þessara styrkja nyti ekki við væri heilbrigðisþjónusta á Austurlandi á öðrum og verri stað en hún er í dag. Það er líka mikilvægt fyrir okkur sem vinnum innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands að finna hversu samfélagið stendur þétt við bakið á okkur, það hvetur okkur áfram í allri okkar vinnu. Það er auðvitað alltaf von okkar að þær fjárveitingar sem við fáum til reksturs heilbrigðisþjónustunnar dugi til tækjakaupa en hingað til hefur sú einfaldlega ekki verið raunin. Í því ljósi hefur sá stuðningur sem við höfum notið gert okkur kleift að sinna þjónustu sem við að öðrum kosti hefðum ekki getað sinnt,“ sagði Guðjón Hauksson.“