Brim hlýtur viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnsar og TM

Deila:

Þrjú fyrirtæki, Brim, Kerecis og Sidewind, voru tilnefnd til Sviföldunnar, hvatningaverðlauna Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM sem veitt voru við opnum Sjávarútvegsráðstefnunnar í síðustu viku.

Hvatningarverðlaunin eru ætluð til að hvetja ung fyrirtæki og frumkvöðla til dáða, stuðla að nýbreytni og vekja athygli á gildi nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi. Það eru því tíðindi að svo gamalgróið félag eins og Brim sé tilnefnt til verðlaunanna en í umsögn dómnefndar um tilnefningu Brims kemur fram að Brim sé tilnefnt fyrir “… að vera leiðandi í innleiðingu sjálfbærniviðmiða og er sífellt að leita nýrra leiða til að fullvinna afurðir og hliðarstrauma. Orkunotkun og orkuskipti hafa verið félaginu hugleikin, og þá hefur fyrirtækið hannað sitt eigið umhverfiskerfi sem kortleggur heildar kolefnisspor félagsins. Brim hefur undanfarin ár gefið út samfélagsskýrslu sem greinir frá hvaða áhrif fyrirtækið hefur á samfélagið og umhverfið. Brim var fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið á Íslandi til að gefa út „græn og blá skuldabréf“ og að líkindum fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið í heiminum. Þessar áherslur hjá Brim í umhverfismálum geta orðið öðrum fyrirtækjum, bæði smærri og stærri, góð hvatning.”

Það var Sidewind sem hlaut Svifölduna í þetta skiptið. Sidewind er ungt sprotafyrirtæki sem er að þróa lausn sem nýtir vindorku og er ætlað að draga úr olíunotkun í gámaflutningaiðnaði um 5-30%.

„Það er ánægjulegt að Brim sé tilnefnt til hvatningarverðlauna Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM, en það sýnir að þrátt fyrir langa sögu félagsins erum við í sífelldri framþróun og nýsköpun. Viðurkenning eins og þessi hvetur okkur áfram á þeirri vegferð sem við erum nú þegar á,” segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf..

Sjávarútvegsráðstefnan stóð yfir á fimmtudag og föstudag í síðustu viku en starfsfólk Brims tók virkan þátt í ráðstefnunni sem fyrirlesarar, málstofustjórar og áheyrendur.

 

Deila: