Vonar að veðrið verði til friðs

204
Deila:

„Maður vonar bara að veðrið verði til friðs,“ er haft eftir Friðleifi Einarssyni, skipstjóra á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, á vef Brims hf. Togarainn lét út höfn í Reykjavík í gærkvöldi eftir löndun. Síðasti túr var mun styttri en ætlað var sökum veður en Helga María landaði um 55 tonnum.
„Tæplega helmingur aflans var ufsi og svo vorum við gullkarfa og eitthvað bland af öðrum tegundum. Ufsinn er góður. Þetta er þessi hefðbundni vertíðarfiskur og það var nokkuð komið af hrognum í þennan fisk,“ segir Friðleifur.

,,Við hófum veiðar á Eldeyjarbanka en þar var ekkert að hafa svo við fórum á Fjöllin og þar vorum við þar til við vorum kallaðir heim. Við vorum aðeins tvo sólarhringa á veiðum en í raun náðum við bara nokkrum klukkutímum í senn á milli þess sem veðrið rauk upp eða gekk aðeins niður,” segir Friðleifur en hann segist þó ekki geta verið annað en sáttur við aflann þessa tvo daga.

,,Ég veit ekki enn hvert stefnan er sett en ég reikna með því að það verði norður á Vestfjarðamið. Reyndar heyri ég að það sé eitthvað ástand á fisknum þar. Lítið að hafa en maður veit aldrei. Aflinn gæti rokið fyrirvaralaust upp. Maður vonar bara að veðrið verði til friðs,“ segir Friðleifur sem er heilt yfir ánægður með aflabrögðin frá áramótum. Janúar hafi almennt verið fínn og það sé nú í byrjun febrúar að veðráttan hafi sett strik í reikninginn.

Deila: