Lokadagur

Deila:

Þann 11. maí er lokadagur vetrarvertíðar á Suðurlandi. Vertíðin hófst 1. janúar og stóð því yfir í rúma þrjá mánuði. Á lokadag var vetrarhlutur sjómanna gerður upp og menn gerðu sér glaðan dag. Skipseigandi eða svokallaður formaður, sem var skipstjórinn, hélt matar- eða kaffiveislu og jafnframt var stundum vel veitt af brennivíni.

En nú er öldin önnur. Kvótakerfi skammtar mönnum aflaheimildir og þeim dreifa útgerðirnar jafnt yfir árið. Nú miðast afli við fiskveiðiárið og engin eiginleg vetrarvertíð á netum er lengur. Betabátar orðnir örfáir og svokallaðir vertíðarbátar allir á línu eða netum. Nú eru það togararnir sem taka mest af þorskinum.

Aflastaðan í þorski nú á hinum gamla lokadegi er sú að veidda hafa verið um 132.350 tonn af leyfilegum heildarkvóta upp á 194.500 tonn samkvæmt aflastöðulist Fiskistofu. Miðað er við slægðan fisk. Sex togarar hafa landað meiru en 2.000 tonn og einn línubátur. Aflahæsti togarinn er Málmey SK með 2.896 tonn. Síðan koma eyfirsku togararnir Hjalteyrin með 2.793 tonn, Björgvin með 2.680, Sólbakur með 2.500 og Snæfell með 2.373 tonn og síðan Klakkur SK með 2.024 tonn.

Anna EA er hæst línubátanna með 2.110 tonn en annars eru stóru línubátarnir margir að nálgast 2.000 tonnin. Það er reyndar rétt að geta þess að stóru skipin voru í verkfalli í tvo mánuði í vetur, en þau væru annars væntanlega komin með mun meiri afla nú.

Þegar talað er um vetrarvertíð er fyrst og fremst talar um svokallaða vertíðarbáta, sem stunduðu veiðar í net. Mikil keppni var milli skipstjóra einstakra báta og áhafna þeirra um að verða aflakóngar vertíðarinnar, bæði innan hverrar verstöðvar og yfir landið allt. Hart var sótt og róið í nánast öllum veðrum svo fremi sem bátarnir kæmust úr höfn. Svo jöfn var keppnin oft milli báta að ekki munaði nema nokkrum kílóum þegar upp var staðið. Til eru dæmi um að „menn hafi étið af sér toppinn.“ Svo litlu munaði að nokkrar fiskmáltíðir um borð réðu hver varð aflakóngur það árið.
Það er ótrúlegt hvað þessir netabátar voru að fiskaá sínum tíma. Bæði var sóknin frjáls og fiskigengd mikil á hrygningarslóðinni fyrir Suður- og Vesturlandi en mest voru þeir að fiska í kringum 1.500 tonn á þremur mánuðum en metið er 1.917 tonn. Segja má að ljóminn af vetrarvertíðinni hafi farið af þegar kvótakerfið kom1984 á og heimildir til veiða voru skertar verulega. Mönnum var skammtaður afli og frelsi til sóknar afnumið. Þó voru aflamet á vetrarvertíðum sett árið 1989.
Ægir, tímarit Fiskifélags Íslands tók saman árið 1989 lista yfir vertíðarbáta sem höfðu þá aflað meira en 1.500 tonna á vetrarvertíð og voru þeir þá 10. Fullyrða má að listinn sé enn óbreyttur. Listinn er þannig:
1. Þórunn Sveinsdóttir VE 401. Skipstjóri Sigurjón Óskarsson, afli 1.917 tonn árið 1989
2. Jóhann Gíslason ÁR 42. Skipstjóri Sveinn Jónsson, afli 1.780 tonn árið 1989
3. Geirfugl GK 66. Skipstjóri Björgvin Gunnarsson, afli 1.704 tonn árið 1970
4. Sæbjörg VE 56. Skipstjóri Hilmar Rósmundsson, afli 1.654 tonn árið 1969
5. Þórunn Sveinsdóttir VE 401. Skipstjóri Sigurjón Óskarsson, afi 1.541 tonn árið 1981
6. Albert GK 31. Skipstjóri Þórarinn Ólafsson afli 1.517 tonn árið 1970
7. Jón á Hofi ÁR 62. Skipstjóri Jón Björgvinsson, afli 1.514 árið 1981
8. Skarðsvík SH 205. Skipstjóri Sigurður Kristjánsson, afli 1.512 árið 1972
9. Friðrik Sigurðsson ÁR 37. Skipstjóri Sigurður Bjarnason, afli 1.504 árið 1980
10. Arnfirðingur II RE 212. Skipstjóri Ólafur Finnbogason, afli 1.502 tonn árið 1970
Í samantekt Ægis segir svo: „Ekki er hægt að segja skilið við þessa skrá án þess að geta þess að það skip sem þarna er í 4. Sæti, Sæbjörgin VE-56, var 29 ára gamall eikarbátur og aðeins 67 brúttórúmlestir að stærð. Auk þess er rétt að geta þess að aflametið á undan Hilmari átti Finnbogi Magnússon frá Patreksfirði sem réri á leigubátum á vertíðunum 1963 og 1964. Finnbogi réri á Helga Helgasyni VE á vetrarvertíð 1963 og náði 1.444 tonnum. Næstu vertíð var Finnbogi með Loft Baldvinsson EA og aflaði 1.474 tonna.“

Deila: