„Fylgja ber ráðgjöf vísindanna“

Deila:

Samtök fyrirtækja í sjávarútveg hafa sent frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar um hæfilegan fiskafla helstu nytjastofna.

„Hafrannsóknastofnun birti í morgun ráðgjöf fyrir komandi fiskveiðiár 2022/2023. Hæst ber áframhaldandi samdráttur í ráðlögðum þorskafla. Í samræmi við aflareglu stjórnvalda er lagt til að hámarksafli þorsks á næsta fiskveiðiári verði alls 208.846 tonn, en á yfirstandandi fiskveiðiári er hann tæplega 222.737 tonn. Samdrátturinn á milli fiskveiðiára er því um 6% en þess ber að geta að frá  fiskveiðiárinu 2019/2020 er samdrátturinn ríflega 23%. Þá var ráðlagður heildarafli í þorski 272.411 tonn. Slíkur samdráttur á ekki lengri tíma er áskorun og hefur mikil áhrif á afkomu greinarinnar. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) mælast hins vegar til þess að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar verði fylgt.

Mikill árangur hefur náðst á undanförnum árum í uppbyggingu þorskstofnsins. Veiðar hafa verið stundaðar með sjálfbærum hætti og afli takmarkaður á forsendum varúðarleiðar og vísindalegrar ráðgjafar. Þrátt fyrir að tekist hafi að byggja upp sterkan viðmiðunarstofn, þá leiða stöku slakir árgangar til þess að sveiflur verða óhjákvæmilegar.

Hafrannsóknastofnun leggur til um 20% samdrátt í ráðlögðum afla gullkarfa frá fyrra fiskveiðiári. Þessi lækkun bætist ofan á lækkun síðustu ára en núverandi tillaga er rúmlega helmingur þess afla sem ráðlagður var árunum 2016 og 2017. Helgast þessi lækkun af nýliðunarbresti í stofninum sem litlar skýringar eru á. Hins vegar er ráðlögð myndarleg aukning í ýsuafla sem er ánægjuleg og í samræmi við upplifun þeirra sem sækja sjóinn.

Öflugar og vandaðar hafrannsóknir eru grunnforsenda þess að unnt sé að skapa verðmæti úr fiskveiðiauðlind. SFS hafa um langa hríð lýst áhyggjum af stöðu hafrannsókna hér á landi. Breytt umhverfisskilyrði í hafi og auknar kröfur á mörkuðum hafa síst dregið úr þessum áhyggjum. Sá mikli niðurskurður sem orðið hefur á vöktun nytjastofna á undanförnum árum er jafnframt umhugsunarefni. Slíkur sparnaður mun auka óvissu um afrakstursgetu stofna og leiða þar með til varkárari nýtingar en ella væri hægt að viðhafa. Sú niðurstaða, sem kynnt var í dag, er staðfesting þess að áhyggjur SFS eru réttmætar og brýnt er að bæta úr.

Fyrirtæki í sjávarútvegi munu þurfa að bregðast við samdrætti í veiðum og ákvarðanir sem taka þarf verða ekki léttvægar. Það er hins vegar ljóst að best hefur reynst að byggja ákvarðanir um nýtingu á niðurstöðum vísinda og sagan segir jafnframt að ekki sé skynsamlegt að fresta því að takast á við vandann. Að því sögðu þá eru það langtímahagsmunir atvinnugreinarinnar að stundaðar séu sjálfbærar fiskveiðar hér við land og því ekki annað ráðlegt en að fylgja ráðgjöf vísindanna.“

Deila: