Um 60.000 tonn í frystigeymslurnar

Deila:

Hákon EA landaði á mánudag 650 tonnum af frosinni norsk-íslenskri síld í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og gæti það verið síðasti farmurinn af slíkri síld á árinu.

Það sem af er ári hafa frystigeymslurnar tekið á móti um 60.000 tonnum af frystum uppsjávarfiski en þar er um að ræða loðnu, makríl og síld. Fiskurinn kemur annars vegar frá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og hins vegar frá vinnsluskipunum Hákoni EA og Vilhelm Þorsteinssyni EA. Á nýliðinni síldarvertíð landaði Vilhelm rúmlega 9.000 tonnum af frosinni norsk-íslenskri síld og Hákon um 8.000 tonnum.

Heimir Ásgeirsson, yfirverkstjóri í frystigeymslunum, segir ísamtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar að frystigeymslurnar hafi tekið á móti heldur minna magni í ár en á síðasta ári. Frá fiskiðjuverinu hafi komið svipað magn og í fyrra og reyndar einnig frá Vilhelm og Hákoni en vinnsluskipið Kristina EA hafi ekki landað frystum afurðum í Neskaupstað í ár en hún landaði hins vegar töluverðu í fyrra.

Heimir upplýsir að búið sé að skipa út tæplega 60.000 tonnum af frosnum uppsjávarfiski í Neskaupstað það sem af er ári.
Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: