Lækkun í ufsa hækkun í ýsu

Deila:

Hafrannsóknastofnun ráðleggur 6 % lækkun aflamarks þorsks fiskveiðiárið 2022/2023. Byggir sú ráðgjöf á aflareglu stjórnvalda. Því lækkar ráðlagður heildarafli úr 222 373 tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári í 208 846 tonn. Lækkunina nú má rekja til lækkunar á mati á viðmiðunarstofni í fyrra miðað við undanfarin ár og innbyggðrar sveiflujöfnunar í aflareglu.

Bjarki Þór Elvarssob kynnir ráðleggingar Hafró.

Gert er ráð fyrir að viðmiðunarstofn þorsks fari hægt vaxandi næstu tvö til þrjú ár þegar árgangarnir frá 2019 og 2020 koma inn í viðmiðunarstofninn þar sem þeir eru nú metnir yfir meðallagi.

Samkvæmt aflareglu verður aflamark ýsu 62 219 tonn sem er 23 % hækkun frá yfirstandandi fiskveiðiári. Áætlað er að viðmiðunarstofninn muni stækka næstu tvö árin vegna góðrar nýliðunar frá 2019 og 2020.

Ráðgjöf fyrir ufsa samkvæmt aflareglu lækkar um 8 % frá yfirstandandi fiskveiðiári og er 71 300 tonn.

Samkvæmt aflareglu verður heildaraflamark gullkarfa 2022/2023 25 545 tonn, 20 % lægra en á yfirstandandi fiskveiðiári. Nýliðun gullkarfa hefur verið mjög slök undanfarinn áratug og af þeim sökum hefur hrygningarstofn minnkað umtalsvert á undanförnum árum og mælist nú við aðgerðamörk. Fyrirséð er að stofninn fari minnkandi á komandi árum og að draga þurfi verulega úr sókn til þess að stofninn haldist fyrir ofan aðgerðarmörk.

Ráðgjöf fyrir grálúðu stendur í stað frá fyrra ári og er 26 710 tonn.

Stofnstærð íslensku sumargotssíldarinnar, sem minnkaði ört frá árinu 2008 vegna slakrar nýliðunar og þrálátrar frumdýrasýkingar í stofninum, hefur farið ört vaxandi. Árgangar 2017 og 2018 eru metnir talsvert stærri en undangengnir árgangar og eru nú meginuppistaðan í viðmiðunarstofninum. Ráðgjöf samkvæmt aflareglu stjórnvalda er 66 195 tonn eða 8 % lægri en á yfirstandandi fiskveiðiári en er tæplega tvöföldun þess magns sem ráðlagt var að veiða fiskveiðiárið 2020/2021.

Á meðfylgjandi töflu má sjá yfirlit yfir ráðgjöf stofnunarinnar.

Tillögur um hámarksafla fiskveiðiárið 2022/2023, ásamt tillögum og aflamarki samkvæmt ákvörðun stjórnvalda fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 (í tonnum). Einnig er sýnd hlutfallsleg (%) breyting á ráðgjöf milli fiskveiðiára.

Deila: