Allt klárt fyrir kolmunnann

Deila:

Endurbótum á fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði er lokið og allt er klárt til að taka á móti fyrstu fiskförmum ársins. Endurbæturnar felast í því að eimingartæki verksmiðjunnar voru endurnýjuð. Vonir standa til að kolmunnaveiðar vestur af Írlandi hefjist fljótlega og verður það því væntanlega kolmunni sem fyrst verður unninn í verksmiðjunni á Vopnafirði.

,,Framkvæmdir við endurbæturnar gengu framar björtustu vonum og við vorum búnir á undan áætlun en áætluð verklok voru 20. janúar,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson verksmiðjustjóri í samtali á heimasíðu HB Granda.

Svo sem fram hefur komið hér á heimasíðunni þurfti að rjúfa þak verksmiðjunnar til að hægt væri að hífa gömlu eimingartækin út og koma þeim nýju fyrir. Sveinbjörn segir að þakið hafi verið rofið um miðjan dag á föstudegi. Nýju eimingartækin  hafi verið komin inn sólarhring síðar og fyrir hádegi á þriðjudag hafi verið búið að loka húsinu að nýju.

,,Það er ljóst að nýju eimingartækin munu breyta ýmsu til hins betra. Þau munu hafa raforkusparnað í för með sér en hve mikill hann verður vitum við ekki fyrr en búið er að keyra verksmiðjuna í einhverjar vikur eða mánuði. Þá er ég að vona að afköstin aukist. Því ætti að vera auðvelt að ná fram bara með því að nýju tækin þarf ekki að þrífa eins oft og þau gömlu. Bara það að lengra líði á milli þrifa er hrein afkastaauking,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson.

Deila: