Flytur erindi um síld
Guðmundur Óskarsson fiskifræðingur flytur erindið Fimmtíu ár frá hruni íslenska vorgotssíldarstofnsins – þróun stofnstærðar síðan þá á málstofu Hafrannsóknastofnunar í dag. Málstofan verður haldin í fyrirlestrarsal á 1. hæð Skúlagötu 4 og verður jafnframt streymt á YouTube-rás stofnunarinnar. Málstofan hefst kl. 12:30. Öll velkomin.
Í lok sjöunda áratugar síðustu aldar varð hrun í þeim þremur síldarstofnum, sem þá var að finna kringum Ísland, einkum vegna ofveiði. Íslenski sumargotsstofninn (ÍSS) náði sér fljótlega á strik og norsk-íslenski vorgotssstofninn (NÍS) nokkru síðar meðan að íslenski vorgotsstofninn (ÍVS) hefur ekki rétt úr kútnum.
ÍSS og ÍVS höfðu alla jafna sama útbreiðslusvæði og voru aðallega veiddir samhliða á haustin. Þeir voru aðgreindir út frá kynþroskastigi. Niðurstöður aðgreiningar í gögnum úr afla og rannsóknaleiðöngrum fyrir árin 1962-2016 sýna að ÍVS er enn til staðar. Hlutfall ÍVS var á bilinu 13-33% á sjöunda áratugnum en undir 5% öll ár síðan þá og að meðaltali 1,4% á árunum 1970-2016. Einstakir árgangar voru stærri en aðrir sem leiddi til smávægilegrar aukningar sum árin.
Aukning í hlutfalli ÍVS í afla í kringum 2004 og 2013 átti sér stað samfara endurkomu NÍS inn á fæðusvæðin austan (~2004) og norðan Íslands (~2013). Niðurstöðurnar styðja gamla tilgátu um að ÍVS myndi mögulega ekki ná sér á strik fyrr en NÍS færi að ganga inn á Íslandsmið aftur því þeir voru taldir skyldir stofnar og samgangur á milli þeirra.