Aukin sala en minni hagnaður hjá High Liner Foods

Deila:

HIGH Liner Foods, umsvifamesti framleiðandi og seljandi unninna frystra sjávarafurða í Norður-Ameríku, hefur tilkynnt um söluaukningu á öðrum ársfjórðungi sem nemur 8 milljónum bandaríkja dala, 878 milljónum íslenskra króna. Alls seldi fyrirtækið afurðir að andvirði 25,5 milljarða íslenskra króna á tímabilinu. Þrátt fyrir það dróst hagnaður samsteypunnar saman um 976 milljónir króna og varð ríflega 4 milljarðar króna.

Í tilkynningu félagsins segir að kaup á fyrirtækinu Rubicon hafi leitt til söluaukningar sem nam um 1.500 tonnum og 1,9 milljörðum króna. Þá hafði það áhrif á sölu samsteypunnar að það þurfti að innkala vörur vegna ófullnægjandi merkinga.

Salan á hörpudiskfyrirtæki High Liner í New Bedford fyrir tæpu ári dró einnig úr sölunni sem nemur um 370 tonnum í magni og 1,2 milljörðum í verðmætum.

Þá hefur High Liner tilkynnt um endurkomu Henry Demone sem forstjóra samsteypunnar, en hann tekur við starfinu af Keith Decker, sem gegndi því frá árinu 2015.

Demone segir að stjórn fyrirtækisins hafi verið honum sammála um  að samsteypan fylgi réttri áætlun um vöxt og muni skila hluthöfum góðum arði til langs tíma. Sem forstjóri hlakki hann til að vinna nánar með forystuteymi High Liner Foods að því að fylgja þeirri stefnu og vinna að að því að nýta þau tækifæri sem gefast til frekari vaxtar.

Demone var forstjóri samsteypunnar frá 1992 til 2015 og leiddi á þeim tíma fyrirtækið frá því að vera staðbundið kanadískt fyrirtæki í veiðum og fiskvinnslu til þess að verða framleiðandi og seljandi sjávarafurða á heimsvísu og í forystu í sölu sjávarafurða í Norður-Ameríku. Á þessum tíma óx samsteypan og dafnaði með miklum kaupum á fyrirtækjum í veiðum, vinnslu og sölu sjávarafurða. Meðal þeirra var Coldwater Seafood, sem Framtakssjóður Íslands seldi til High Liner Foods. Coldwater var stofnað af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna um miðja síðustu öld. Framtakssjóðurinn eignaðist starfsemina eftir hrunið 2008.

Demone mun áfram verða formaður stjórnar High Liner Foods samhliða því að stýra starfsemi samsteypunnar.

 

Deila: