Umsvif jukust í sjávarútvegi á árunum 2008 til 2015

Deila:

„Umsvif jukust þó nokkuð í sjávarútvegi frá 2008 til 2015. Fiskvinnsla í landi jókst um tæp 40%, en veiðar glæddust um 12%. Sjávarútvegur efldist í öllum landshlutum, en mestallur vöxturinn er utan höfuðborgarsvæðisins.“ Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um hagvöxt landshluta á þessum árum.

Í kaflanum um sjávarútveg segir svo: „Útgerð jókst mest frá Austurlandi og Norðurlandi og í þessum landshlutum efldist landvinnsla einnig mikið. Einnig færðist sjávarútvegur í aukana á Vesturlandi. Hér er horft á magntölur. Vöxtur í fiskveiðum helst í hendur við vaxandi afla. Lágt gengi krónunnar, einkum á árunum eftir 2008, á hins vegar þátt í vexti fiskvinnslu. Þegar raungengi krónunnar er lágt verður hagkvæmara að vinna fiskinn hér en erlendis.

Byggðastofnun skipting þáttatekna í sjávarútvegi (2)

Merkilegt er hvað sjávarútvegur dreifist jafnt yfir landið. Hlutur flestra landshluta er nálægt 15%. Aðeins Vestfirðir og Norðurland vestra skera sig úr með minni hlutdeild en aðrir. Ýmislegt ræður því hvar best er að gera út, en nokkur atriði vega þungt: Nálægð við fiskimið, nálægð við útflutningshafnir, góð aðstaða til þess að landa fiski og verka hann og öflugur vinnumarkaður. Dreifing útgerðar um landið bendir til þess að miklu skipti að vera nærri fiskimiðum.

Hefð hefur líka sitt að segja: Gott er að gera út frá góðri höfn, þar sem eru frystihús og nóg af fólki til þess að vinna verkin. Á fyrstu árum aldarinnar færðist útgerð til höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, en eftir 2008 hefur hún styrkst mest í öðrum landshlutum. Togarar eru þó aðeins gerðir út frá fjölmennum stöðum. Í sumum sjávarþorpum eru strandveiðar eina útgerðin, en þeim var komið á fót til þess að styðja við byggð sem stóð höllum fæti. Erfiðar samgöngur ráða sennilega mestu um að hlutur Vestfjarða í íslenskum sjávarútvegi hefur lengi farið minnkandi. Á árunum 2008 til 2015 stækkaði hlutur Austfirðinga í sjávarútvegi hins vegar töluvert.“

Deila: