Aflaverðmæti jókst mest fyrir austan

Deila:

Verðmæti landaðs afla á höfuðborgarsvæðinu er áfram miklum mun meira en í öðrum landshlutum. Í júlí síðastliðnum var þar landað fiski að verðmæti 3 milljarðar króna. Það er aukning um tæp 24%, sem er heldur meira en landsmeðaltalið, sem er 20%.

Næsti landshluti á verðmætislistanum er Austurland með 1,8 milljarða króna. Þar er vöxturinn langmestur í samanburði við júlí í fyrra, hvorki meiri né minni en 74%. Það er meira en þrefalt landsmeðaltalið. Í þriðja sæti eru Suðurnesin með aflaverðmæti upp á 1,5 milljarð króna. Þar ver vöxturinn líka umfram meðaltali, eða 29%.

Þessir þrír landshlutar eru þeir einu, þar sem verðmæti landaðs afla er meira en einn milljarður króna. Næst þeim kemur Suðurland með um 900 milljónir króna, en þar er samdráttur um 5%. Á Norðurlandi eystra var aflaverðmætið 735 milljónir króna og dróst saman um 17%. Norðurland vestra kemur þar í kjölfarið með 640 milljónir sem er vöxtur um 22%.

Aflaverðmæti á Vestfjörðum var 600 milljónir sem er nánast það sama og í fyrra, vöxtur um 3%. Lestina rekur Vesturland með 220 milljóna króna aflaverðmæti. Það er engu að síður vöxtur um 23%.

Fiskafli í júlí á þessu ári jókst um 27% og var meiru landað af flestum tegundum en í sama mánuði í fyrra. Langmest var aukningin í kolmunna, sem er að mestu leyti landað í höfnum á Austfjörðum. Það skýrir hina miklu aukningu þar. Í öðrum landshlutum ræður botnfiskur mestu um aflaverðmæti og því benda breytingar milli ára til meiri eða minni landana, þar sem verð á botnfiski hefur alls staðar hækkað frá því í fyrra.

Deila: