Góðar markaðsaðstæður fyrir lax og regnbogasilung
„Markaðsaðstæður fyrir lax til lengri og skemmri tíma eru góðar, að mati Pareto, hins þekkta norska fjárfestingarbanka. Verð á regnbogasilungi er svipað. Bankinn telur að verð á laxi verði um 890 til 915 krónur á kíló út árið 2020. Þessu veldur aukin eftirspurn eftir laxi en einnig minni framboðsaukning en áður var talið. Allt bendir til að verð til lengri tíma, þ.e árin 2021 til 2022 verði nálægt 930 krónum á kíló.“ Svo segir í færslu á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva.
Svipaða sögu að segja af regnbogasilungi
Svipaða sögu er að segja af regnbogasilungi, en framleiðsla á honum er aftur að vaxa hér á landi. Verð á honum hefur verið um 870 krónur á þriðja ársfjórðungi þessa árs og Pareto telur að verðið á honum stefni í 885 krónur að jafnaði á síðasta ársfjórðungi. Bendir bankinn á að verð á regnbogasilungi fylgi mjög heimsmarkaðsverði á laxi, enda svipaður að gæðum, útliti og bragðið áþekkt. Verðið er þó stöðugra enda meira um langtímasaölusamninga.
Framboð eykst og markaðurinn tilbúinn að greiða hækkandi verð
Það er mat bankans að framboð á laxi aukist um 5 til 6 prósent á komandi árum. En eins og segir í greiningu hans, kemur það þægilega á óvart að markaðurinn sé tilbúinn til að greiða hækkandi verð fyrir lax til frambúðar. Þetta á við um hefðbundna markaði í Bandaríkjunum og Evrópu en enn bíða ónýttir markaðsmöguleikar í vaxandi umsvifum í Asíu.
Aukin vitund um hollustu laxaafurða
Í greiningu bankans er bent á að sterkari vitund neytenda um hollustu fiskafurða, ekki síst laxaafurða, hafi stuðlað að aukinni neyslu. Þannig er vakin athygli á að innflutningur á laxi til Bandaríkjanna hafi aukist um 7 prósent á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Einnig er umtalsverð aukning á laxi í Suður Ameríku.
Stækkandi asíumarkaður
Asíumarkaður fyrir lax vex nú ár frá ári. Hlutur Norðmanna er þar lang mestur eða rúmlega helmingur. Vitund neytenda í álfunni um sjálfbærni framleiðslunnar og rekjanleiki varanna fer vaxandi og með því að æ stærri hluti íbúanna býr við batnandi lífskjör má búast við meiri eftitrspurn eftir laxi.
Góð verð um hátíðirnar
Mat bankans er að verð nú um jólahátíðarnar verði mjög gott. Framboð frá Chile og Noregi verður minna sem muni koma fram í háum verðum.