Loðna fyrir öllu Norðurlandi
Grænlenska loðnuskipið Polar Amaroq hefur síðustu daga verið að loðnuveiðum úti fyrir Norðurlandi. Loðnan er fryst um borð og er skipið komið með fullfermi. Gert er ráð fyrir að aflanum verði skipað um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn nk. fimmtudag.
Polar Amaroq er eina loðnuskipið sem veitt hefur fyrir norðan land síðustu daga á sama tíma og íslenski loðnuflotinn gat ekkert getað aðhafst á loðnumiðunum suður af landinu vegna veðurs. Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Geir Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq í gærmorgun en þá var skipið statt á Rifsbanka út af Sléttu.
„Við erum núna á Rifsbanka og hér er loðnu að sjá. Það er loðna úti fyrir öllu Norðurlandi. Í þessum túr köstuðum við á Skagafirði, Skjálfanda og norður af Fljótum og eins var loðna á Öxarfirði og víðar. Í gær og fyrradag vorum við á Skjálfanda og fengum fínustu köst við Flatey og síðasta kastið tókum við rétt utan við Húsavík. Loðnan sem veiðist hér er með um 15% hrognafyllingu. Hér fyrir norðan er best að ná loðnunni á kvöldin og fram eftir nóttu, en á daginn stendur hún djúpt. Við erum að klára að frysta – frystilestin er að verða full.
Það er býsna gott að hafa verið hér fyrir norðan og fengið fullfermi á meðan brælan hefur einkennt veðurfarið syðra. Þessi túr okkar verður átta dagar höfn í höfn og það datt einungis einn dagur út vegna brælu. Ég tel að það sé enn að koma loðna hér upp að Norðurlandinu. Ég var að fá mynd frá skipstjóra sem var staddur suðvestur af Kolbeinsey og þar eru myndarlegar loðnutorfur,“ sagði Geir Zoëga.
Myndir Geir Zoega.