Gamall kunningi með kolmunna til Neskaupstaðar

Deila:

Norska skipið Gardar kom í gær morgun með 1.800 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar. Skipið er gamall kunningi Norðfirðinga, en það var í eigu Síldarvinnslunnar á árunum 2010-2013 og bar þá nafnið Beitir. Skipstjórinn á Gardar, Jonny Tøkje, upplýsti í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að aflinn hefði fengist vestur af Írlandi og þar væri mikið magn af kolmunna á ferðinni. „Það var svo sannarlega mikið að sjá og það þurfti aldrei að leita. Þarna var mikið fiskirí. Það tók okkur 2 ½ sólarhring að sigla af miðunum til Neskaupstaðar,“ sagði Jonny.

 

Jonny Tøkje skipstjóri á Gardar.  Ljósm. Smári Geirsson

Jonny Tøkje skipstjóri á Gardar.
Ljósm. Smári Geirsson

Gardar kom til löndunar á Íslandi meðal annars vegna þess að nú er áformað að skipið veiði loðnukvóta sinn við landið. „Við höfum 1.120 tonna kvóta og við þurfum að gefa okkur tíma til að ná honum. Það tekur tíma að sinna loðnuveiðinni. Það mega 30 norsk loðnuskip veiða loðnu við landið samtímis og til dæmis núna bíða 22 eftir því að geta hafið veiðar. Ég hafði samband við önnur skip frá sömu útgerð sem voru úti í nótt en þetta eru skipin Manon og Slaatterøy.

Skipin voru austur af Langanesi og þær upplýsingar fengust að lítið væri að hafa. Loðnan stendur djúpt og erfitt að ná henni í nót. Í fyrradag melduðu norsk skip 2.700 tonn af loðnu og allir sjá að það er ekki mikið. En við erum bjartsýnir og trúum því að veiðin eigi eftir að batna. Það tekur dálítið á þolinmæðina að þurfa að bíða eftir því að fá að hefja veiðar en nú eru vetrarólympíuleikarnir að hefjast og þá verður hægt að fylgjast með þeim í sjónvarpi alla daga þannig að okkur ætti ekki að leiðast,“ sagði Jonny Tøkje að lokum.

 

Deila: