„Stoltur af okkar öfluga teymi“

Deila:

Aðalfundur Marel hf. var haldinn rafrænt þann 16. mars 2022 kl. 16:00. Allar tillögur stjórnar til aðalfundar voru samþykktar. Tillögurnar eru aðgengilegar á vefsíðu fundarins: marel.com/agm. Nánari upplýsingar um atkvæðagreiðslu á fundinum er að finna í viðhengi.

Stjórnarformaður félagsins, Arnar Þór Másson, ávarpaði fundinn fyrir hönd stjórnar og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri, gaf skýrslu um fjárhagsárið 2021 og veitti innsýn í starfsemi félagsins.

Úr skýrslu stjórnarformanns Marel, Arnars Þórs Mássonar:

„Á liðnu ári tókum við skýr og ákveðin skref í átt að vaxtarmarkmiðum okkar fyrir árin 2023 og 2026. Við kynntum til leiks nýjar hátæknilausnir sem munu halda áfram að umbylta matvælaiðnaðinum, styrktum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet okkar og framleiðslueiningar, og kláruðum yfirtökur sem styðja við innri vöxt félagsins. Stafræn þróun er á fleygiferð. Nýjar hugbúnaðarlausnir Marel gera viðskiptavinum okkar kleift að auka sjálfbærni í matvælaframleiðslu með betri nýtingu á hráefni, orku og vatni og tryggja neytendum á sama tíma aukinn rekjanleika, gæði og öryggi matvæla. Sjálfbærni er lykilþáttur í stefnu og starfsemi Marel. Félagið hefur sett sér markmið um að ná kolefnishlutleysi (e. net zero) fyrir árið 2040. Til að styðja við þessa vegferð félagsins höfum við kynnt fimm ára áætlun um sjálfbærni og skýr markmið á sviði umhverfis, samfélags og stjórnarhátta. Árangur okkar grundvallast á árangri viðskiptavina okkar, liðsheild starfsmanna og þau víðtæku áhrif sem nýsköpun og vöruþróun getur haft á aukna sjálfbærni þvert á virðiskeðjur.“

Úr skýrslu forstjóra Marel, Árna Odds Þórðarsonar:

„Viðskiptavinir okkar eru stórhuga í fjárfestingum til að umbreyta matvælavinnslu með því að auka sjálfvirknivæðingu og ná fram auknum sveigjanleika og skölun rekstrar. Þetta kristallast í 22% aukningu pantana á síðasta ári. Skortur á vinnuafli, breytt hegðun neytenda og aukin krafa um sjálfbærni í matvælaframleiðslu ýta undir auknar fjárfestingar í stafrænum og samtengdum lausnum sem tryggja sveigjanleika í vöruframboði til að mæta eftirspurn eftir öruggum, hagkvæmum og sjálfbærum matvælum.

Við tókum framsýna ákvörðun í miðjum heimsfaraldri um að hraða fjárfestingum og fjölga starfsfólki til að styrkja enn frekar markaðssókn og þjónustu um heim allan. Þetta leiðir til hækkunar á sölu- og markaðskostnaði tímabundið, en við væntum þess að auknar tekjur muni skila betri kostnaðarframlegð. Ég er stoltur af okkar öfluga teymi sem hefur tekist að skila góðri sölu, klárað flóknar uppsetningar og haldið áfram að þjónusta viðskiptavini okkar um heim allan við afar krefjandi aðstæður.

Rekstraraðstæður hafa verið krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum og yfirstandandi COVID-19 heimsfaraldurs sem náði hámarki í upphafi árs, en tafir og verðhækkanir í aðfangakeðju munu áfram lita afkomu á fyrri árshluta 2022. Til að styðja við rekstrar- og vaxtarmarkmið okkar fyrir árin 2023 og 2026 höfum við meðal annars aukið virka verðstýringu og ráðist í fjárfestingar í innviðum félagsins sem styðja við skilvirkni í sölu- og þjónustuleiðum til viðskiptavina ásamt sjálfvirknivæðingu og samlegð stoðsviða í framleiðslu, sölu og þjónustu.

Nýlegar yfirtökur og stefnumarkandi samstarf hafa stutt við innri vöxt með kross- og viðbótarsölu á breiðara vöruframboði, og hraðað nýsköpun og þróun á nýjum hátæknilausnum. Staða fyrirtækisins og firnasterkur fjárhagur gera okkur nú kleift að ráðast í stærri yfirtökur til að knýja fram áframhaldandi vöxt og viðgang.“

Eftirfarandi aðilar voru kosnir í stjórn Marel hf.:

 • Ann Elizabeth Savage
 • Arnar Þór Másson
 • Ástvaldur Jóhannsson
 • Lillie Li Valeur
 • Ólafur Guðmundsson
 • Svafa Grönfeldt
 • Ton van der Laan

Stjórn hefur skipt með sér verkum og er Arnar Þór Másson formaður og Ólafur Guðmundsson varaformaður.

Aðrar tillögur til fundarins

 • Aðalfundurinn samþykkti arðgreiðslu að fjárhæð 5,12 evrusent á hlut fyrir rekstrarárið 2021. Fyrirhuguð heildararðgreiðsla nemur um 38,7 milljónum evra, sem samsvarar um 40% af hagnaði ársins og er í samræmi við markmið félagsins um fjármagnsskipan og arðgreiðslustefnu.
 • Tillögur um starfskjarastefnu og kaupréttarkerfi félagsins voru samþykktar. Hluthafar samþykktu einnig tillögu um stjórnarlaun vegna ársins 2022 og þóknun til endurskoðenda fyrir liðið starfsár.
 • Tillaga um breytingu á grein 5.1 í samþykktum félagsins var samþykkt. Greinin kveður nú á um að aðalfundur kjósi árlega 7 menn til setu í stjórn félagsins í stað 5-7 manna áður.
 • Tillaga um endurnýjun á heimild í grein 15.2 í samþykktum félagsins var samþykkt. Greinin heimilar stjórn að hækka hlutafé um 75 milljónir króna að nafnvirði, m.a. til þess að nota í tengslum við fyrirtækjakaup eða stefnumarkandi fjárfestingar. Gildistími heimildarinnar er 18 mánuðir.
 • Endurskoðunarskrifstofan KPMG ehf. var kosin endurskoðandi félagsins.
 • Tillaga um að endurnýja heimild félagsins til að kaupa eigin hlutabréf var samþykkt. Heimildin gildir í 18 mánuði frá samþykki.

Myndbandsupptökur af ávörpum stjórnarformanns og forstjóra verða gerðar aðgengilegar á vefsíðu fundarins.

Ársskýrsla 2021

Ársskýrsla Marel fyrir árið 2021 er komin út. Þar er leitast við að gefa lesendum innsýn í starfsemi Marel, stefnu og tækifæri til vaxtar. Árangur Marel byggir á stöðugri nýsköpun og öflugu neti starfsmanna hringinn í kringum hnöttinn. Við getum öll haft áhrif. Í hringrásarhagkerfinu skiptir hver gráða máli og 360° heildarsýn okkar snýst um að auka sjálfbærni í matvælaframleiðslu með betri nýtingu á hráefni, orku og vatni. Þannig höldum við ótrauð áfram að umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu.

Ársskýrslan er aðgengileg á stafrænu formi hér: ar2021.marel.com

Deila: