Nútíð og framtíð í sýndarveruleika

Deila:

Gestir á Sjávarútvegssýningunni og World Seafood Congress sem haldnar voru í liðinni viku voru leiddir í gegnum fiskvinnslu nútíðar og framtíðar í sýndarveruleika.

„Allt frá opnun hefur básinn okkar á Sjávarútvegssýningunni í Fífunni verið vinsæll áfangastaður viðskiptavina og annarra gesta en þess má geta að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, og Guðni Th. Jóhannesson, Forseti Íslands, stöldruðu bæði við og skoðuðu hátækni fiskvinnslu í 360 gráðu sýndarveruleika,“ segir í frétt á heimasíðu Marel. Þar stendur ennfremur:

Fjölmiðlar höfðu ekki síður áhuga á Marel á sýningunni en segja má að fiskurinn fljúgandi hafi stolið senunni í kvöldfréttum Stöðvar 2. Sjávarútvegssýningunni var svo fagnað með S-Amerískri salsa veislu sem slegið var upp í höfuðstöðvum fyrirtækisins.

Þá má ekki gleyma aðkomu okkar að World Seafood Congress sem haldin var í Hörpu fyrr í vikunni. Á þeirri ráðstefnu var áherslan lögð á vöxt í bláa lífhagkerfinu (e. the blue bioeconomy), rannsóknir í nýsköpun í sjávarútvegi, matvælaöryggi og rekjanleika. Stella Kristinsdóttir, markaðsstjóri í fiski, var fundarstjóri á lokadegi ráðstefnunnar þar sem Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri, hélt erindi. Sigurður fjallaði til að mynda um tæknibyltinguna sem er að eiga sér stað í fiskvinnslu og hvernig nýsköpun hjá Marel hefur stutt við áframhaldandi þróun á hátækni vinnslu á sjávarafurðum.

Næst á dagskrá er svo árleg hvítfisks sýning Marel, Whitefish ShowHow, sem fram fer í Kaupmannahöfn í lok mánaðarins, auk þess sem Marel tekur þátt í sýningum á Spáni og í Kína á komandi vikum.“
 

Deila: