Ráðherra bregðist strax við

Deila:

LS hefur í hartnær 5 mánuði beðið eftir að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði við beiðni félagsins um að afnema ákvæði í reglugerð sem heimilar flutning þorsks úr krókaaflamarki yfir í aflamark í skiptum fyrir ýsu.  „Reglulega hefur ráðherra verið minntur á erindið í bréfum til hans, umfjöllun í blöðum, blaðagreinum og á fundum.  Jafnframt upplýstur um áhrif þessa á smábátaútgerðina, þorskur ekki fáanlegur á leigu og bátar að stöðvast hver á fætur öðrum, staðan þrengist með degi hverjum.  Morgunblaðið sagði frá því að á Flateyri væri örðugt að uppfylla þau skilyrði að leggja fram kvóta og veiða tvöfalt það magn fyrir 450 tonna byggðakvóta í þorski.  Leigumarkaður væri botnfrosinn og þorskkvóti ekki í boði,“ segir í frétt á heimasíðu Landssambands smábátaeignda.

„Við setningu krókaaflamarks var sátt um að veiðiheimildir yrðu ekki fluttar frá smábátum til stærri skipa.  Bæði til að verja tilvist smábátaútgerðar gagnvart „frjálsu“ framsali.  Reynslan sýndi að samkeppnisstaða um veiðiheimildir var ójöfn.  Aðgangur að fjármagni leiddi til þess að smábátaútgerðin átti enga möguleika á þeim markaði.  Það var vilji stjórnvalda að hér yrði öflugt veiðikerfi smábáta þar sem óheimilt væri að nota önnur veiðarfæri en línu og handfæri.

Landssamband smábátaeigenda harmar þann langa tíma sem ráðherra hefur tekið sér til umhugsunar og skorar á hann að bregðast nú þegar jákvætt við beiðni LS um breytingar á reglugerð.  Vandinn vex með degi hverjum, nú þegar fiskveiðiárið er hálfnað nemur flutningur þorsks frá smábátum til stærri skipa þremur fjórðu af því sem flutt var á öllu síðasta fiskveiðiári,“ segir í frétt LS

 

Deila: