Veiðar á loðnu ekki ráðlegar að mati Hafró

Deila:

Hafrannsóknastofnun leggur til að engar loðnuveiðar verði leyfðar á vertíðinni í vetur. Þetta er niðurstaða haustleiðangurs Íslands og Noregs á hafsvæðinu milli Íslands og Grænlands og norðan Íslands.  Heildarmagn loðnu mældist 795 þúsund tonn og þar af var metin stærð veiðistofns vertíðarinnar 2019/2020 einungis um 186 þúsund tonn. Það nægir ekki til að veiðar séu ráðlegar.

Bergmálsmælingar á stærð loðnustofnsins fóru fram á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni og norska uppsjávarskipinu Erosi dagana 9. september – 21. október.

Leitarsvæði skipanna í haust.

Rannsóknasvæðið náði frá landgrunninu við Austur Grænland frá um 75°00’N og suðvestur með landgrunnskanti Grænlands suður fyrir 64°N, en auk þess til Grænlandssunds, Íslandshafs, hafsvæðisins vestan Jan Mayen auk Norðurmiða.

Loðna fannst víða á rannsóknasvæðinu. Ungloðna, sem myndar hrygningar- og veiðistofninn á vertíðinni 2020/2021, var vestast og sunnan til á svæðinu en eldri loðna var mest áberandi norðar á landgrunni Grænlands, austan við Scoresbysund. Lítið fannst af fullorðinni loðnu innan íslenskrar lögsögu og var útbreiðsla loðnunnar vestlæg, líkt og verið hefur undanfarin ár. Þó var minna um loðnu norðanvert á rannsóknasvæðinu en verið hefur undanfarin ár og ekkert fannst norðan við 71°30.

Útbreyðsla loðnunnar

Heildarmagn loðnu mældist 795 þúsund tonn og þar af var metin stærð veiðistofns vertíðarinnar 2019/2020 einungis um 186 þúsund tonn. Töluvert var hinsvegar um ungloðnu og mældust tæplega 83 milljarðar eða 608 þúsund tonn af ókynþroska loðnu en samkvæmt aflareglu þarf yfir 50 milljarða til að mælt verði með upphafsaflamarki fiskveiðiársins 2020/2021.  Gögn um niðurstöður ungloðnumælinganna verða lögð fyrir Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) sem mun veita ráð um upphafsaflamark vertíðarinnar 2020/2021 þann 29. nóvember.

Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar í mars 2020 með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats útreikninganna, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu. Í samræmi við ofangreinda aflareglu ráðleggur Hafrannsóknastofnun að ekki verði leyfðar loðnuveiðar á vertíðinni 2019/2020.

Hafrannsóknastofnun mun að vanda mæla veiðistofn loðnu í janúar/febrúar 2020 og endurskoða ráðgjöfina í ljósi þeirra mælinga.

Lesa má nánar um ráðgjöfina á hlekknum: https://www.hafogvatn.is/is/veidiradgjof/lodna

 

Deila: