Mikill áhugi á hugmyndafræði Sjávarklasans

Deila:

Mikill og vaxandi áhugi er á starfi og hugmyndafræði Íslenska sjávarklasans víða um heim. Á rúmu ári hefur fulltrúum klasans verið boðið að tala í yfir 20 löndum í Asíu, Norður- og Suður Ameríku og Evrópu.  Starfsmenn klasans hafa kynnt starf hans og árangur Íslands á sl ári í Suður Kóreu, Abu Dhabi, Írlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi svo nokkur lönd séu nefnd. Þá hefur klasinn myndað net fjögurra systurklasa í Bandaríkjunum sem vakið hafa töluverða athygli. Frá þessu er greint á heimasíðu Íslenska sjávarklasans.

Mestur áhugi hefur verið á því hvernig Íslendingum hefur tekist að þróa margháttaða starfsemi í fullvinnslu hliðarafurða og tækni fyrir fiskvinnslu. Þá hefur mikill áhugi verið á því að koma upp svipuðum aðferðum og Sjávarklasinn hefur beitt við að tengja saman fólk úr ólíkum geirum til að auka verðmæti og búa til ný tækifæri í “nýja sjávarútvegnum”!

Í maímánuði munu starfsmenn klasans kynna starfsemi hans og árangur Íslands á Food Tech Week í London og á „Íverksetursdegi“ í Færeyjum.

„Við lítum svo á að klasinn sé orðinn mikilvægt kynningartæki fyrir Ísland og til þess að mæta enn betur óskum um að kynna Ísland og hugmyndafræði okkar á þessu sviði hyggjumst við ræða við stjórnvöld um mögulega aðkomu þeirra að þessu alþjóðlega kynningarstarfi klasans,” segir Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans. „Við erum að setja upp heildstætt kynningar- og átaksefni, sem við nefnum “100% Fish” og sem gengur út á að kynna alþjóðlega hvernig Íslendingum hefur tekist að nýta mun betur sjávarafurðir. Á meðan aðrar þjóðir henda 50% af fiski nýtum við 80% og mörg fyrirtæki stefna að 100% nýtingu. Ég tel að þessi þekking okkar og reynsla geti nýst bæði nágrannaþjóðum okkar og einnig þróunarríkjum,“ segir Þór. Hann bætir við að 100% átakið sé einnig ágæt kynning á íslenskri ráðgjöf og tækni um leið og hún geti stuðlað að bættri umgengni um sjávarauðlindir víða um heim.

 

Deila: