Gaman að fá að fara inn í firði og flóa

Deila:

Vinnslustöðvarskipin Breki VE-61 og Þórunn Sveinsdóttir VE-401 tóku bæði þátt í stofnmælingum Hafrannsóknarstofnunar á botnfiski hringinn í kringum landið núna í október, verkefni sem gjarnan er einfaldlega kallað „haustrall Hafró“. Þetta mun vera þriðja árið í röð þar em Breki tekur þátt í haustrallinu en um árlegan viðburð er að ræða.

Haustrallið hefur verið stundað frá árinu 1996 en markmiðið er að styrkja mat á stofnstærð helstu botnlægra nytjastofna með því að toga á sömu stöðum með sams konar veiðarfærum ár eftir ár á Íslandsmiðum, meta og mæla það sem upp kemur, skrá sjávarhita og margt fleira.

Skipting rannsóknarsvæðisins miðast við meginútbreiðslu þorsks, ýsu og gullkarfa á grunnslóð annars vegar og grálúðu og djúpkarfa á djúpslóð hins vegar. Djúpslóðin er á 400 til 1.500 metra dýpi, að því er fram kemur á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Þórunn  Sveinsdóttir togaði á 179 stöðvum á grunnslóðinni en Breki á 155 stöðvum á djúpslóð. Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson tók sem fyrr þátt í rallinu og togaði á 38 stöðvum suðvestur og vestur af landinu.

Þórunn togaði á 25 til 422 metra dýpi (174 dýpi að meðaltali), Breki togaði á 150 til 983 metra dýpi (542 metra dýpi að meðaltali). Dýpsta stöðin í leiðangrinum var um 1.300 metrar og á slíku dýpi hafa ekki önnur skip í íslenska flotanum en Árni Friðriksson möguleika til að toga.

Á vef Vinnslustöðvarinnar er fjallað um togararallið í máli og myndum.

„Gaman var að fást við þetta í fyrsta sinn, fá að fara hringinn í kring„”, inn fyrir mörk landhelginnar og nánast upp í fjörugrjót sums staðar. Við sigldum alls 3.800 sjómílur í rallinu og lönduðum fiski í alls 420 körum á Ísafirði, Dalvík og í Vestmannaeyjum,“ er haft eftir Óskari Þór Kristjánssyni, skipstjóra á Þórunni Sveinsdóttur.

Deila: