Bölvuð bræla
Segja má að dagróðrafyrirkomulag ríki hjá skipum Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum um þessar mundir. Veður hefur truflað veiðarnar að undanförnu og er lægðagangurinn býsna þrálátur. Afli hefur hins vegar verið góður þegar viðrað hefur til veiða samkvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Sem dæmi hélt Bergey til veiða á laugardagsmorgun og landaði seinni partinn á sunnudag 54 tonnum, fór á ný út á miðnætti og kom inn í gær vegna bölvaðrar brælu og hélt til veiða á ný í morgun. Aflinn sem skipið kom með að landi í gær var 35 tonn sem er góð sólarhrings veiði. Þó svo að vel hafi fiskast tala sjómennirnir um að enn vanti vertíðarbraginn við Eyjar.
Ljósmynd Guðmundur Alfreðsson