Kokkar og matráðar á næringarfræðinámskeiði

Deila:

     Sl. mánudag var haldið í Neskaupstað námskeið fyrir kokka og matráða Síldarvinnslunnar þar sem næringarfræðingurinn og Norðfirðingurinn Berglind Lilja Guðlaugsdóttir fór yfir grunnatriði í næringarfræði og ýmsar leiðir til að gera máltíðir og matarumhverfi heilsusamlegra bæði til sjós og lands. Farið var yfir val á hráefnum, eldunaraðferðum og skipulagi í kringum máltíðir og innkaup. Berglind er klínískur næringarfræðingur, dokstorsnemi og aðjúnkt við Háskóla Íslands og hefur mikla reynslu í slíku námskeiðahaldi.

„Þetta var frábært námskeið“, segir Haraldur Egilsson, kokkur á Berki NK. „Það er gott að fá upprifjun á næringarfræðinni og Berglind notaði mjög sniðugar aðferðir til að benda okkur á leiðir til að auka hollustuna á einfaldan hátt. Við vorum mjög ánægð með þetta og fengum fullt af hugmyndum sem verður gaman að vinna með“, segir Haraldur í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Annað námskeið verður haldið í dag, miðvikudaginn 26. október, og eru þeir sem hafa fengið boð hvattir til að mæta. Í næstu viku verða svo netfyrirlestrar þar sem öllu starfsfólki Síldarvinnslunnar býðst fræðsla um næringu og leiðir til að bæta mataræði.
Myndin er frá næringarnámskeiðinu sl. mánudag. Við borðsendann situr Berglind Lilja Guðlaugsdóttir næringarfræðingur. Lengst til vinstri standa þær Danijela Sokolov og   Hólmfríður Guðjónsdóttir matráðar í frystihúsinu á Seyðisfirði. Þá eru á myndinni kokkar
á Síldarvinnsluskipum, talið frá vinstri: Haraldur Egilsson, Hjörvar Moritz Sigurjónsson og Gunnar Bogason.
Ljósm. Smári Geirsson

 

 

Deila: