LS segir kvótasetningu ekki áhættunnar virði

Deila:

„Í framtíðinni verða því ekki tíu eða fleiri grásleppubátar sem hefja veiðar frá hinum dreifðu byggðum.  Breytingarnar valda gríðarlegum áhrifum á það útgerðarform sem verið hefur.” Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn LS um frumvarp um kvótasetningu grásleppu. Á vef LS er farið yfir málið. Þar segir að 16 umsagnir hafi borist.

Í umsögn LS segir m.a. að félagið hafi að vel athuguðu máli komist að þeirri niðurstöðu að veiðistýring á grásleppu með aflamarki svari engu af því sem ekki er hægt að uppfylla í núverandi veiðikerfi.  Fjöldi veiðidaga, veiðarfæra og veiðileyfa,  takmarkar það magn sem má veiða auk þess er stofninn verndaður með því að óheimilt er að stunda veiðarnar á bátum 15 brt. og stærri.
Bent er á að með frumvarpinu sé lagt til að afnema stærðarmörk báta. Þannig verði heimilaður flutningur veiðiheimilda á t.d. 100 tonna skip ef því sé að skipta. „Jafnframt að takmarkanir á fjölda neta verða ekki lengur í gildi. Ákveðin veiðisvæði sem nú hafa rúmað 5 – 10 báta gætu því verið teppalögð af netum frá einum báti og gert minni bátum ókleift að taka þátt í veiðunum. Þó hámarksaflahlutdeild verði 2%, eru engar takmarkanir á hversu mikið skip má veiða á hverri vertíð. Viðkomandi getur þannig flutt til sín aflamark og veitt langt umfram 2% af leyfilegum hámarksafla.”
„Í framtíðinni verða því ekki tíu eða fleiri grásleppubátar sem hefja veiðar frá hinum dreifðu byggðum.  Breytingarnar valda gríðarlegum áhrifum á það útgerðarform sem verið hefur.  LS gagnrýnir að Matvælaráðuneytið hafi ekki kallað til sérfræðinga til að leggja mat á áhrif þessara þátta á hinar dreifðu byggðir, mannlíf, menningu og verðmæta sem þær búa yfir.  Hvaða áhrif það hefði á byggðarlögin að útgerð hefðbundinna grásleppubáta myndi fjara út á næstu árum.  Í þeirra stað kæmu stærri bátar þar sem handhafi aflahlutdeildarinnar væri í fæstum tilvikum um borð og áhöfnin ekki með heimilisfesti í plássinu.“ – Úr umsögn LS
Deila: