Breska útgerðin gekk vel í fyrra
Tekjur breskrar útgerðar hækkuðu úr 775 milljónum punda, 105 milljörðum króna, í um 920 milljónir punda, 125 milljarða króna á síðasta ári. Skýringin liggur í hækkandi fiskverði á flest öllum tegundum frá árinu áður. Meðalverð á tonn af lönduðum afla var í fyrra 1.318 pund, 178.400 krónur, eða 178 krónur á kíló. Það er hæsta verð sem fengist hefur í sögunni að árinu 2011 undanteknu að teknu tilliti til verðbólgu. Þetta kemur fram í skýrslu sjávarútvegsstofnunarinnar Seafish
Fjöldi fiskiskipa og báta jókst úr 4.576 árið 2015 í 4.607 á síðasta ári. Af þessum fjölda eru 1.700 skráð sem bátar í takmarkaðri notkun með tekjur minni en 1,4 milljónir króna á árinu 2016.
Seafish telur að heildarútgjöld fiskiskipa og báta vegna olíukaupa árið 2015 hafi verið 13 milljarðar íslenskra króna árið 2015, sem er 30% minna en árið 2014. Eldsneytiskostnaður sem hlutfall af tekjum var um 12%.
Hagnaður flotans var 23 milljarðar króna 2015 og jókst um 22% á síðasta ári og fór í 28 milljarða. Hlutfall hagnaðar af brúttótekjum var 20% bæði í fyrra og hitteðfyrra.
Viðtöl voru tekin við um 700 skipstjóra og útgerðarmenn vegna gerðar skýrslunnar í fyrrasumar, þar sem rætt var um aðgengi og kostnað veiðiheimilda, eldsneytisverðs og markaðsmál, svo sem fiskverð, sem eru helstu þættirnir sem hafa áhrif á afkomu útgerðarinnar.
Þegar markmið næstu ára voru rædd, voru svörin mismunandi. Útgerðarmenn og skipstjórar nefndu fjölda þátta sem takmörkuðu umsvifin eins og óvissu um aflaheimildir, hækkandi rekstrarkostnað, samkeppni, stöðu fiskistofna, fiskverð, pólitískt landslag í framtíðinni og loks veðrið.
Skýrsluna má sjá á eftirfarandi slóð: