Blængur sneisafullur af úthafskarfa

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í fyrrakvöld með fullfermi af úthafskarfa. Veiðiferðin tók 21 dag en skipið var 16 daga að veiðum. Aflinn var 560 tonn upp úr sjó eða 15.600 kassar.

Theodór Haraldsson skipstjóri segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar að Blængur sé einstaklega heppilegt skip til veiða eins og þessara, það sé öflugt og kraftmikið í alla staði.
„Veiðin gekk afar vel þarna á Reykjaneshryggnum. Við enduðum til dæmis á því að taka 35 tonna hol eftir tíu tíma. Og vinnslan er alltaf að ganga betur og betur þó enn megi bæta afköstin. Það er ávallt verið að sníða vankanta af vinnslulínunni og það tekur dálítinn tíma. Afköstin hjá okkur voru 700 kassar á sólarhring fyrst í túrnum en í lokin vorum við komnir í 1140 kassa. Veðrið var fínt megnið af túrnum. Það kom ein bræla og við þurftum þá að stoppa í 18 tíma. Það voru einungis fjögur íslensk skip að úthafskarfaveiðum að þessu sinni. Auk okkar voru það Vigri, Þerney og Arnar. Að auki var þarna fjöldi erlendra skipa. Síðustu dagana vorum við eina íslenska skipið að veiðum auk eins Spánverja og nokkurra Rússa. Skipin höfðu lokið úthafskarfaveiðum, voru búin með kvóta sína,“ sagði Theodór.

Löndun hefst úr Blængi í gærmorgun en áhöfnin mun njóta sjómannadagshelgarinnar að lokinni þessari vel heppnuðu veiðiferð.

 

Deila: