Aukinn munur á afurðaverði og verði á fiskmörkuðum
Mikið er að gerast í íslenskum sjávarútvegi í sumar. Eftir tveggja mánaða verkfall á flotanum fyrstu tvo mánuði ársins hefur afli af þorski verið meiri í hverjum mánuði borið saman við sömu mánuði í fyrra. Útgerðirnar eru því að vinna upp þann tíma, sem ekki mátti veiða, en á móti kemur að fiskverð á íslenskum fiskmörkuðum er mun lægra en í fyrra samkvæmt fréttaskýringu frá markofish.com
Hluti skýringarinnar er styrking íslensku krónunnar, sem náði hámarki í júní. Á það hefur þó verið bent af Landssambandi smábátaeigenda að verðmunurinn sé meiri en útskýra megi með breytingum á gengi krónunnar. Aðrir þættir sem skýra má lækkunina með hafa einnig komið upp, eins og vaxandi kostnaður í fiskvinnslunni og útgerð, lokun markaða í Rússlandi og minni kaupgeta almennings í Bretlandi.
Í línuritunum tveimur hér að neðan má sjá meðalverð á íslenskum fiskmörkuðum síðustu fjögur árin á tímabilinu fyrsta apríl til 13. júlí. Þar sést að meðalverð á umræddu tímabili í ár, er lægra en síðustu ár, sérstaklega ef miðað er við íslensku krónuna.
Sé verðið hins vegar umreiknað í evrur sést að munurinn er ekki mikill vegna styrkingar krónunnar á síðustu mánuðum. Það er eðlilegt að útflutningsverð og ferð á fiskmörkuðum lækki þegar gengi evrunnar lækkar, en fréttaskýrendur markofish spyrja sig þeirrar spurningar hvort jafnvægi sé þarna á milli og ef svo sé ekki, hvort hægt sé að útskýra það.
Á línuritinu hér að neðan sést meðalverð á íslenskum fiskmörkuðum (bláa línan) frá því í janúar 2013 og meðalverð eftir mánuðum á útfluttum ferskum flökum og flakastykkjum frá Íslandi (appelsínugula línan). Einnig má sjá mismuninn á útflutningsverði og verði á fiskmörkuðum í evrum (gula línan) og hvert hlutfall verðs á fiskmörkuðum (%) er af útflutningsverðinu (gráa línan)
Það sem lesa má út úr línuritinu er að meðalverð á fiskmörkuðum hefur lítið breyst á undanförnum árum. Þrátt fyrir að það hafi á síðustu fjórum mánuðum farið undir tvær evrur á kíló. Útflutningsverð á þorskflökum og flakastykkjum hefur einnig lækkað, en sé litið til liðinna ára hefur útflutningsverðið hækkað meira en verðið á fiskmörkuðunum.
Gula línan á línuritinu sýnir okkur verðmuninn í evrum. Miðað við hreyfingu gulu línunnar sést að munurinn hefur aukist á undanförnum árum. Gráa línan sýnir okkur hvert hlutfall verðs á fiskmörkuðum er af útflutningsverðinu. Það hlutfall hefur farið lækkandi frá árinu 2013
Taka verður marga þætti með í reikninginn til að skýra aukinn mun verðs á fiskmörkuðum og útflutningsverði. Helsti kostnaðurinn við framleiðslu flaka og flakastykkja er hráefniskostnaðurinn og kostnaður tækja og vinnulaun vegna framleiðslunnar. Laun á Íslandi hafa farið hækkandi og leiðir það til hækkandi framleiðslukostnaðar, sem gæti skýrt hluta mismunarins. Bæði útganga Breta úr Evrópusambandinu og verkfallið í vetur geta svo haft einhver áhrif.
Það mun þurfa frekari rannsóknir og söfnun upplýsinga til að útskýra þennan mismun og næstu daga mun Landssamband smábátaeigenda og stjórnendur reiknistofu fiskmarkaða fara í sameiningu yfir málin.