Loðnuvertíð HB Granda lokið
Lokið var við að landa loðnuafla Venusar NS á Akranesi i gærkvöldi og með vinnslu á þeim afla lýkur loðnuvertíð hjá HB Granda þetta árið. Kolmunnaveiðar í alþjóðlegri lögsögu vestur af Írlandi taka nú við. Víkingur AK hélt frá Akranesi áleiðis á miðin á sunnudag og fyrirhugað er að Venus fylgi í kjölfarið í dag.
,,Við vorum með um 2.000 tonna afla í þessum síðasta túr á loðnu,“ segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Venusi, en með þeim afla náðist heildarkvóti HB Granda á vertíðinni sem var alls 33.800 tonn.
Guðlaugur segir í samtali á heimasíðu HB Granda loðnuvertíðina nú hafa einkennst af þeim litla kvóta sem gefinn var út.
,,Veiðin fór mjög vel af stað í janúar en loðnan gekk mjög dreift með austur- og suðurströndinni. Við urðum að taka okkur hlé frá veiðum vegna kvótans þegar loðnan var við Langanes. Það var enginn að veiðum þegar loðnan var úti af Austfjörðum eða þegar hún gekk upp á grunnin við Suð-Austurland og ef litið er á það hve víða, fyrir sunnan, vestan og norðan, loðna hefur veiðst síðustu dagana er deginum ljósara að það er útilokað að hægt sé að segja til um það hve stofninn er stór. Til þess þarf miklu víðtækari rannsóknir. Það þarf að fylgjast með loðnunni öllum stundum og menn eiga ekki að þurfa að bíða í fleiri daga eftir nauðsynlegustu upplýsingum,“ segir Guðlaugur en hann tekur líka fram að menn verði að fara að átta sig á því að hrygningarsvæði loðnunnar séu að færast norðar.
,,Loðnan velur hitastig við hæfi líkt og aðrir fiskar. Það er nærtækast að líta á ýsuna sem fyrr á árum hrygndi aðallega við suðurströndina. Nú hrygnir ýsan úti af Norðurlandi.“
Góðar fréttir hafa borist af aflabrögðum á kolmunnaveiðunum vestur af Írlandi en Guðlaugur segist bara vona að það verði ekki um seinan að fá góðan afla.
,,Síðasti dagurinn, sem gaf íslensku skipunum einhvern afla í fyrra á alþjóðlega svæðinu, var 18 mars. Eftir það gekk kolmunninn norður í skosku lögsöguna. Vandinn við veiðar á þessu hafsvæði er jafnan veðrið. Það er sjaldan gott. Það er erfitt að eiga við stór hol í snarvitlausu veðri en vonandi verður það skaplegt að þessu sinni,“ segir Guðlaugur Jónsson.