Verð á þorski hækkar
Verð á óslægðum þorski veiddum á handfæri tók kipp uppá við í gær. Á fiskmörkuðunum voru boðin upp alls 72 tonn og var meðalverð 237 krónur / kg. Það er 59 krónum hærra en fékkst fyrir viku mánudaginn 10. júlí, jafngildir þriðjungs hækkun. Þess ber þó að geta að framboðið nú var aðeins 72 tonn á móti 248 tonnum sl. mánudag.
„Það er vonandi að verðið í dag sé vísbending að hækkandi verði og því við hæfi að setja inn þessa glæsilegu mynd sem Víðir Örn Jónsson á nafna sínum ÞH frá Grenivík tók á útleið frá Siglufirði í síðustu viku,“ segir á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.