Vestfirðingar biðja ekki um annað en skilning

Deila:

Það eru bjartar framtíðarhorfur í Ísafjarðarbæ og við byggjum okkur upp af eigin rammleik. Það er hinsvegar augljóst að laxeldi verður einn af undirstöðuþáttunum í atvinnuuppbyggingu næstu ára á norðanverðum Vestfjörðum, líkt og suðurfjörðunum. Vestfirðingar biðja ekki um annað en skilning, sanngjarna umfjöllun og að leyfisumsóknir fái eðlilega afgreiðslu.

Þannig kemst Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði að orði í grein sem hann birti í blaðinu Vestfirðir, síðasta tölublaði. Hér fara á eftir þeir kaflar úr grein Gísla sem fjalla um fiskeldismálin.

180 bein störf í fiskeldi á Vestfjörðum í dag
Þrátt fyrir að sveitarfélögin á Vestfjörðum geri ekki kröfu um ákveðna niðurstöðu úr afgreiðslu leyfisumsókna til laxeldis þá er ljóst að þau eru áhugasöm um að laxeldi eigi sér áfram stað á svæðinu. Í dag eru 180 bein störf í kringum fiskeldi á Vestfjörðum og skattsporið er um milljarður. Í áætlunum fiskeldisfyrirtækja er gert ráð fyrir 700-800 beinum störfum – sé miðað við varfærnislegt burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar. Í verðmætum má reikna með 60 milljörðum í útflutningstekjur.
Vissulega mun þurfa samstillt átak fiskeldisfyrirtækja, ríkisins og sveitarfélaga í uppbyggingu innviða og atvinnugreinarinnar. Fyrsta mál á dagskrá er hinsvegar að leyfisumsóknir séu unnar af fagmennsku – og á þeim hraða sem lög gera ráð fyrir.
Laxeldið í Færeyjum
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fór í heimsókn til vina okkar Íslendinga í Færeyjum dagana 8.-12.maí síðastliðinn. Súðavíkurhreppur tók þátt í þessari heimsókn með Ísafjarðarbæ og var tilgangur ferðarinnar tvíþættur. Í fyrsta lagi vildum við færa Færeyingum þakklætisvott vegna stuðnings og vinarþels sem frændur okkar sýndu eftir snjóflóðin í Súðavík í janúar 1995 og á Flateyri í október sama ár. Í öðru lagi vildum við kynna okkur laxeldi Færeyinga en þeir eru hugsanlega fremstir allra þjóða í slíku eldi.
Athöfn fór fram í Þórshöfn í Færeyjum þann 9. maí þar sem borgarstjóri Þórshafnar, Annika Olsen, tók á móti listaverkinu „Tveir vitar“ eftir ísfirska listamanninn Jón Sigurpálsson. Høgni Hoydal var viðstaddur athöfnina fyrir hönd færeysku ríkisstjórnarinnar og flutti ræði ásamt Anniku Olsen og fulltrúum Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar. Verkið er á fallegum stað í lundinum Grið í nágrenni Vesturkirkju í hjarta Þórshafnar. Óhætt er að segja að Færeyingar hafi tekið vel þessari viðleitni okkar og gagnkvæmur skilningur var á gildi þessarar kveðju. Það er von sveitarfélaganna að með þessu hafi verið komið til skila því þakklæti sem býr ævinlega í hjörtum okkar til færeysku þjóðarinnar vegna þeirrar samúðar sem Færeyingar auðsýndu í kjölfar snjóflóðanna á Vestfjörðum 1995.

1 kíló af fóðri verður að 1 kílói af laxi – Ótrúleg staðreynd
Odd Eliassen, forstjóri í Havsbrún, tók svo að sér að kynna okkur laxeldið í Færeyjum. Havsbrún er hluti af Bakkarfrost samstæðunni, en fjöldi fólks á vegum stálsmíðafyrirtækisins 3X á Ísafirði hefur starfað við gerð nýrrar verksmiðju Bakkafrost í Rúnavík, vinabæ Ísafjarðarbæjar. Havsbrún er heimsþekktur framleiðandi laxafóðurs, fiskimjöls og lýsis. Nánast öll framleiðsla Havsbrúnar er nýtt í laxafóður og aðeins lítill hluti þess fer til útflutnings. Havsbrún er í fararbroddi í framleiðslu laxafóðurs og á þátt í því að færeyskur lax selst á hærra verði en annar eldislax.
Á einum og sama deginum fengum við að sjá allt laxeldisferlið eins og það leggur sig, frá klaki seiða og framleiðslu fóðurs til kvíaeldis – og til þess að laxaafurðum var staflað á bretti í nýrri verksmiðju Bakkafrost. Í vinnslu Bakkafrost í Færeyjum nýtist eldislax 100% til manneldis. Fóðurhlutfallið eftir 2015 er þessu til viðbótar með þeim hætti að 1 kíló fóðurs verður að 1 kíló af laxi (wikipedia). Ótrúleg staðreynd!
Í fóðurverksmiðju Havsbrúnar sáum við kolmunna unninn í laxafóður og þannig nýtist hann 100% til manneldis, kíló fyrir kíló, en einungis fengjust um 270 grömm til manneldis ef kolmunni væri nýttur beint sem soðning á okkar disk. Í leit að sjálfbærni og umhverfisvænum kostum skorar eldislax úr sjó því afskaplega hátt.

Einn besti kosturinn til að takast á við aukna matvælaframleiðslu
Fiskeldi, og þá sérstaklega laxeldi, er í dag einn besti kostur mannkyns til að takast á við aukna matvælaframleiðslu á umhverfisvænan hátt. Kolefnisspor laxeldis er lægra en dæmi eru um annarsstaðar. Afurðin er einnig sérstaklega holl til manneldis. Laxeldi hefur verið í þróun á undanförnum áratugum og hefur vissulega lent í sínum hremmingum. Síle, Noregur, Kanada og Færeyjar hafa öll gert sín mistök í gegnum tíðina. Mistökin hafa hinsvegar verið nýtt til þess að læra af þeim. Ýmis dæmi sem stangveiðimenn tína til í dag til að tala niður laxeldið eru einmitt gömul dæmi um mistök sem menn hafa þegar lært af. Það er engin ástæða fyrir Íslendinga til annars en að læra af þessum sömu mistökum og nota nýjustu aðferðir hér á landi.

Laxeldi verði einn af undirstöðuþáttunum í atvinnuuppbyggingu á norðanverðum Vestfjörðum

Það eru bjartar framtíðarhorfur í Ísafjarðarbæ og við byggjum okkur upp af eigin rammleik. Það er hinsvegar augljóst að laxeldi verður einn af undirstöðuþáttunum í atvinnuuppbyggingu næstu ára á norðanverðum Vestfjörðum, líkt og suðurfjörðunum. Vestfirðingar biðja ekki um annað en skilning, sanngjarna umfjöllun og að leyfisumsóknir fái eðlilega afgreiðslu.

Deila: