Byrjaði í saltfiski hjá Gauja Marteins
Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, er maður vikunnar á Kvótanum í dag. Mikið er um að vera hjá SVN um þessar mundir eftir sumarfrí og ber þar hæst makrílvertíð. Hákon byrjaði að vinna við sjávarútveg sem unglingur í saltfiski.
Nafn?
Hákon Ernuson.
Hvaðan ertu?
Fæddur á Ísafirði, en það segir lítið hvaðan ég er. Þegar það hentar þá er ég frá Ísafirði, Akranesi, Neskaupstað eða Akureyri.
Fjölskylduhagir?
Giftur Lilju Ester Ágústdóttur og eigum við Sylvíu Kolbrá 24 ára, Hákon Huldar 15 ára, Sólveigu Sigurjónu 9 ára og 5 mánaða Breton-hvolp sem heitir Skuggi.
Hvar starfar þú núna?
Starfsmannastjóri hjá Síldarvinnslunni hf.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Fyrst sem unglingur í saltfiskskemmunni hjá Gauja Marteins í Neskaupstað.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Stemningin þegar vertíðir eru að byrja og síðan tækniþróunin síðustu ára.
En það erfiðasta?
Finna sáttina um íslenskan sjávarútveg.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Það var þegar ég starfaði sem gæðastjóri í fiskimjölsverkmiðjunni fyrir ríflega 15 árum og þurfti að smakka mjöl til að finna út hvort það var hágæðamjöl eða standardmjöl, annað var frekar gott á bragðið en hitt síður gott á bragðið.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Þeir eru nú margir en Guðmundur Karl farandverkamaður Íslands var eftirminnilegur vegna áhuga hans og þekkingu á gangamálum á Austurlandi.
Hver eru áhugamál þín?
Skotveiði s.s. gæs, rjúpa og hreindýr. Golf, skíði og núna þjálfun á standandi fuglahundi.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Hreindýrasteik og rjúpa.
Hvert færir þú í draumfríið?
Skíðaferð til Ítalíu.