„Starf Slysavarnaskólans á stóran þátt í fækkun slysa á sjó“

Deila:

Á starfstíma skólans hafa mjög miklar breytingar átt sér stað hvað varðar öryggisvitund sjómanna og raunar almennt í þjóðfélaginu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að skólinn á mikinn þátt í fækkun slysa á sjó og að starfsemi skólans skiptir miklu máli fyrir íslenskan sjávarútveg,” segir Bogi Þorsteinsson, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna sem tók við starfinu síðastliðið haust af Hilmari Snorrasyni sem verið hafði skólastjóri í yfir þrjátíu ár. Bogi hefur starfað við Slysavarnaskóla sjómanna um fjórtán ára skeið sem kennari og aðstoðarskólastjóri. Á komandi ári verða liðin fjörutíu ár frá stofnun skólans. Skólinn er rekinn af Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og eru níu starfsmenn við hann. ´

Starfsemin byggð á lögum og alþjóðareglum

Hlutverk Slysavarnaskóla sjómanna snýst um fræðslu starfandi og verðandi sjómanna en til að fá lögskráningu á skip þurfa sjómenn samkvæmt lögum að hafa lokið tilteknum námskeiðum í Slysavarnaskóla sjómanna. Sjómenn í starfi þurfa einnig að endurnýja þessi réttindi á fimm ára fresti. „Okkar starf byggist á lögum um skólann og um öryggisfræðsluskyldu sjómanna sem miðast einnig við alþjóðareglur,“ segir Bogi og útskýrir að hópurinn sem sækir námskeið skólans sé mjög fjölbreyttur. Um er að ræða þá sem hyggjast leggja fyrir sig sjómennsku, starfandi sjómenn sem eru að endurnýja réttindi sín, námskeið vegna alþjóðlegra réttinda og námskeið til atvinnuréttinda í skipstjórn og vélstjórn, svo dæmi séu tekin. Þessu til viðbótar nefnir Bogi sem dæmi starfsmenn hafna, farþega- og flutningaskipa, fiskeldis á sjó og í landi og fleiri. Hóparnir eru því ólíkir þó lang stærsti hópur nemenda séu sjómenn á öllum stærðum og gerðum fiskiskipa íslenska flotans.

Endurmenntun á fimm ára fresti

Verkleg kennsla er í skólaskipinu Sæbjörgu í Reykjavíkurhöfn en Bogi segir að á síðari árum hafi skólinn þróað í auknum mæli þjónustu sína í námskeiðahaldi á netinu. „Endurmenntun á grunnnámskeið er sem dæmi þannig hjá okkur að nemendur fá lesefni til að fara yfir og taka þekkingarkönnun sem er ígildi eins dags vinnu og síðan koma þeir til okkar í einn dag í verklega hlutann. Námskeiðin geta verið lengri fyrir einstaka hópa, t.d. vegna alþjóðlegra réttinda. En í flestum tilvikum er almenna reglan sú að réttindi skuli endurnýja á fimm ára fresti,“ segir Bogi en það er sjómannanna sjálfra að bera ábyrgð á því að þeir hafi fullgild réttindi. Bogi segir útgerðirnar þó í vaxandi mæli hafa yfirlit í sínum kerfum yfir stöðu endurmenntunar sinna sjómanna og einnig fylgist margir skipstjórar vel með þessu.

„Komi upp sú staða að sjómaður er að renna út á réttindum sínum getur hann skráð sig á námskeið og fengið frest hjá Samgöngustofu til að vera á sjó. Það er því ekki þannig að sjómenn komist ekki á sjó ef réttindin eru runnin út heldur hafa þeir tækifæri til að fara á næsta námskeið,“ segir Bogi en Slysavarnaskóli sjómanna skipuleggur sín námskeið og birtir nokkra mánuði fram í tímann. „Við gætum þess að ávallt sé í boði pláss á skyldunámskeiðin og oft er hægt að komast að með stuttum fyrirvara ef á þarf að halda,“ segir hann.

Netið nýtt til þróunar námskeiðahaldsins

Á upphafsárum Slysavarnaskóla sjómanna fór Sæbjörgin um landið til að halda námskeið fyrir sjómenn en dræm þátttaka og aukinn kostnaður gerði þetta fyrirkomulag óhentugt. Auk heldur hefur tilkoma netsins opnað möguleika til að færa bóklegt námskeiðahald skólans yfir á rafrænt form og í fjarkennslu. „Netið hefur opnað okkur nýja möguleika sem við eigum eftir að þróa ennþá meira á komandi árum. Í því felast þróunarmöguleikar fyrir okkar starfsemi,“ segir Bogi.

Í vaxandi mæli hefur Slysavarnaskóli sjómanna boðið upp á námskeið í heimahöfnum ef heilar áhafnir sameinast um námskeið og þannig sparast tími og ferðakostnaður. „Við mætum þá um borð og þá er áhöfnin búin að undirbúa sig, búin með heimavinnuna, búið er að gera áhættumat, neyðaráætlun og annað um borð. Síðan eru verkleg námskeið haldin með hliðstæðum hætti og í Sæbjörgu,“ segir Bogi.

Mun ríkari öryggisvitund en áður

Bogi segist sjá mikla breytingu í öryggisvitund sjómanna á þeim fjórtán árum sem hann hefur starfað við Slysavarnaskóla sjómanna. „Maður skynjaði jafnvel einhvern ótta hjá mönnum og feimni við þessi námskeið og öryggismálin þegar ég var að byrja en í dag er þetta verulega breytt og sumum finnst við jafnvel ekki gera nóg á námskeiðunum og vilja meira. Flestum þykja þessi námskeið algjörlega sjálfsagður og mikilvægur þáttur af starfi sjómanna. Við finnum vissulega að áhuginn er mismikill milli áhafna, sumar áhugasamari en aðrar en almennt eru þessi mál í góðum farvegi í flotanum og öryggisvitund sjómanna rík,“ segir Bogi og að hans mati á starf Slysavarnaskóla sjómanna stóran þátt í mikilli fækkun slysa á sjó síðustu áratugi.

„Ég held að það sé ekki vafi en hins vegar spila fleiri þættir inn í þessa þróun. Ég get til dæmis nefnt aukið eftirlit með skipum, bættar veðurspár og svo líka þessa almennt auknu öryggisvitund í samfélaginu. Við sjáum að þegar menn hafa setið námskeið hjá okkur þá skynja þeir mikilvægi öryggismála og við það eykst áhuginn og öryggisvitundin. Okkar starf er langhlaup, við erum stöðugt að hamra járnið og það hefur skilað miklum árangri á tæpum fjórum áratugum,“ segir Bogi Þorsteinsson.

Mynd/Þorgeir Baldursson

Greinin birtist fyrst í nýju tölublaði Sóknarfæris.

Deila: