Sóttu veikan skipverja

Deila:
Í fyrrakvöld hafði skipstjóri á bresku rannsóknarskipi samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna veikinda um borð. Skipið var þá statt um 300 sjómílur suður af landinu. Skipstjóranum var bent á að halda í átt að landi og að þyrla yrði kölluð út þegar skipið væri komið nær Íslandi.
Þetta kemur fram í færslu Landhelgisgæslunnar.
Þar segir að þyrla hafi verið send á loft frá Reykjavíkurflugvelli laust eftir klukkan 6 um morguninn. „Flogið var í 6000 feta hæð og þegar þyrlan nálgaðist skipið fór þyrlusveitin yfir það hvernig staðið yrði að hífingum og veitti leiðbeiningar um stjórntök og undirbúning. Þyrlan kom að skipinu þegar það var um 115 sjómílur suður af landinu. Vel gekk að hífa sjúklinginn um borð og í kjölfarið var honum komið undir læknishendur í Reykjavík.”
Í færslunni er tekið fram að önnur áhöfn og þyrla hafi verið sett í viðbragðsstöðu vegna útkallsins, en það sé alltaf gert þegar flogið sé langt á haf út, bæði vegna sjúkraflugsins og vegna skútu sem hafi verið í vanda um 60 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum.
Fram kemur að björgunarskipið Þór, á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hafi verið kallað út til að aðstoða skútuna og taka hana í tog til Eyja. „Leki var kominn að skútunni. 12 voru um borð í skútunni og ákveðið var að hafa þyrluna í viðbragðsstöðu í Eyjum til að gæta fyllsta öryggis. ”
Björgunarskipið Þór dró skútuna til Vestmannaeyja.
Meðfylgjandi mynd er úr safni.
Deila: