Ríflega 200.000 tonn kolmunna komin á land

Deila:

Nú hafa íslensku uppsjávarveiðiskipin skilað á land 201.500 tonnum af kolmunna það sem af er ári. Leyfilegur heildarafli er 314.00 tonn, eftir sérstakar úthlutanir og færslu aflaheimilda milli ára. Í fyrra varð aflinn alls 224.400 tonn. Um 23.000 tonn af kvótanum náðust ekki og voru flutt yfir á þetta ár.

Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu er Beitir NK með mestan afla, rétt tæp 20.000 tonn. Víkingur AK er næstur með 18.750 tonn og þriðji er Bjarni Ólafsson AK með tæp 15.600 tonn. Nokkur skip eru nú að veiðum innan lögsögu Færeyja, en öll skip verða að vera í landi á sjómannadag, næstkomandi sunnudag. Eftir hann verður aflastöðulistinn nákvæmari.

Í fyrra varð Víkingur AK með mestan kolmunnaafla á árinu, 21.300 tonn. Börkur NK kom næstur með 20.700 tonn og sá þriðji var Venus NS með 20.300 tonn.

Deila: