Breytt framkvæmd eftirlits með byggðakvóta

Deila:

Innan tíðar má vænta þess að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auglýsi hvernig byggðakvóti fiskveiðiársins 2019/2020 skiptist milli byggðarlaga og þá verður auglýst eftir umsóknum um úthlutun til einstakra skipa eftir því sem reglur einstakra byggðarlaga verða samþykktar. Fiskistofa vekur athygli útgerða á því að stofnunin hyggst fylgja reglum  um  byggðakvótann eftir með öðrum hætti framvegis en áður hefur tíðkast. Það er því mikilvægt að kynna sér eftirfarandi leiðbeiningar um breytta framkvæmd.

Eigendur og útgerðaraðilar fiskiskipa sem hafa hug á því að sækja um byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2019/2020 þurfa að huga að eftirfarandi atriðum:

Hvaða afli telur til byggðakvóta? 

  • Afli sem landað er til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu frá 1. september 2019 til 31. ágúst 2020.
  • Afli sem haldið er aðskildum frá öðrum afla, ásamt því að vera vigtaður og skráður sérstaklega við vigtun á hafnarvog.
  • Afli sem ekki hefur áður verið metinn til byggðakvóta.

Breytt framkvæmd/leiðbeiningar 

Borið hefur á því að afla sem telja á til byggðakvóta hefur verið landað til vinnslu en ekki tilgreint að um sé að ræða byggðakvóta til vinnslu. Eins hefur borið á því að öllum afla sé landað sem byggðarkvóti til vinnslu án þess að öllum afla sé ætlað að telja til byggðakvóta.

Fiskistofa vill árétta að tilgreina þarf sérstaklega á vigtarnótu þann afla sem á að teljast til byggðakvóta sem byggðakvóti til vinnslu við hverja og eina löndun. Því þarf skipstjóri að gæta sérstaklega að þessu atriði þegar hann kemur upplýsingum til vigtarmanns. Fiskistofa úthlutar ekki byggðakvóta nema aflinn sem um ræðir sé skráður með framangreindum hætti. Afla sem ekki á að telja til byggðakvóta á ekki að tilgreina sem slíkan á vigtarnótu. Fiskistofa mun ekki breyta skráningu landana í byggðakvóti til vinnslu eftirá. Að sjálfsögðu mun Fiskisstofa eftir sem áður leiðrétta einstakar landanir ef um villur er að ræða.

 

Hvaða vinnsla telur til byggðakvóta?

  • Flökun, flatning, frysting, söltun eða hersla.
  • Afli sem er boðinn upp á fiskmarkaði telur ekki til byggðakvóta.

Breytt framkvæmd/leiðbeiningar 

Við úthlutun mótframlags til byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2019/2020 mun Fiskistofa bera saman vigtarnótur við vigtar- og ráðstöfunarskýrslur (VOR-skýrslur) og gögn af fiskmörkuðum. Komi fram í VOR-skýrslum að afli sem skráður er sem byggðakvóti til vinnslu uppfylli ekki skilyrði um vinnslu (þ.e. flökun, flatningu, frystingu, söltun eða herslu) telur sá afli ekki sem mótframlag til byggðakvóta. Það sama gildir um afla sem tilgreindur er á vigtarnótu sem byggðakvóti til vinnslu en reynist síðan hafa verið boðinn upp á fiskmarkaði.

Framangreind umfjöllun um breytta stjórnsýsluframkvæmd Fiskistofu og leiðbeiningar taka ekki mið af sérstökum skilyrðum fyrir úthlutun aflamarks innan einstakra byggðarlaga þar sem slík skilyrði hafa enn ekki verið samþykkt og birt af ráðuneytinu. Fiskistofa mun eftir því sem tilefni er til birta leiðbeiningar um breytta framkvæmd þegar sérreglur byggðarlaga verða birtar.

 

Vinnslusamningar 

Bæjar- eða sveitarstjórn er falið að árita samning sem eigandi fiskiskips gerir við fiskkaupanda um magn afla sem landað verður til vinnslu hjá viðkomandi vinnsluaðila. Í slíkri áritun felst eftirfarandi staðfesting bæjar- eða sveitarstjórnar:

  • Að eigandi fiskiskips hafi gert skriflegan samning við fiskkaupanda um magn sem landað verður til vinnslu hjá viðkomandi vinnsluaðila innan hlutaðeigandi byggðarlags.
  • Að vinnsluaðili skuldbindi sig til að vinna aflann innan hlutaðeigandi byggðarlags.

Breytt stjórnsýsluframkvæmd/leiðbeiningar 

Borið hefur á því að vinnslusamningar taki til fisktegunda sem viðkomandi vinnsla vinnur ekki. Einnig hefur borið á því að aðili sem vinnslusamningur er gerður við hafi ekki vinnsluleyfi frá Matvælastofnun. Fiskistofa telur að í staðfestingu bæjar- eða sveitarstjórnar felist að kannað sé hvort umrædd vinnsla hafi vinnsluleyfi og vinni þær tegundir sem samningurinn kveður á um. Framangreint sé staðfest með áritun bæjar- eða sveitastjórnar á samninginn. Fiskistofa tekur fram að eigandi fiskiskips getur gert fleiri en einn samning um vinnslu og getur skipt um vinnslu á tímabilinu en þá þarf að árita nýja samninginn og koma viðeigandi upplýsingum til Fiskistofu.

Fiskistofa hyggst óska eftir því að með umsókn um úthlutun byggðakvóta fylgi staðfesting bæjar- eða sveitarstjórnar um að gerður hafi verið samningur milli eiganda fiskiskips og fiskkaupanda sbr. framangreint og að hann hafi verið áritaður af hálfu bæjar- eða sveitarstjórnar. Í því samhengi skal það nefnt að ekki verður í boði að fylla út eyðublaðið sem hefur verið á vef Fiskistofu og ber heitið Samningur um vinnslu afla vegna mótframlags fyrir byggðakvóta. Í stað þess kemur  eyðublað sem fylgja skal umsókn og felur í sér staðfestingu sveitarstjórnar á að vinnslusamningur hafi verið gerður.

 

Deila: