Uppsjávarskipin landa kolmunna og síld

Deila:

Þessa stundina berst mikið magn af kolmunna á land á Austurlandi og ekki bara af kolmunna því uppsjávarskip Loðnuvinnslunnar, Hoffell SU er á landleið með 1.250 tonna síldarfarm sem fékkst út af Reykjanesi en á svipuðum slóðum var síldveiði fyrir áramót. Gert er ráð fyrir að landað verði úr skipinu í fyrramálið, föstudag, og að því loknu haldi Hoffellið á kolmunnamiðin suður af Færeyjum.

Landburður af kolmunna
Uppsjávarskipin eru hvert af öðru að koma þessa dagana úr fyrsta túr ársins á kolmunnamiðunum í færeysku lögsögunni. Svanur RE og Venus NS eru að landa á Vopnafirði og Beitir NK er á leiðinni á miðin á ný eftir að hafa landað 2500 tonnum á Seyðisfirði. Nú er verið að landa 1.240 tonnum úr Hákoni EA á Seyðisfirði og í Neskaupstað er verið að landa 3.100 tonnum úr Berki NK og síðan 2.200 tonna farmi úr Barða NK en skipið á stutt eftir til hafnar. Samtals taka verksmiðjur Síldarvinnslunnar því við yfir 9.000 tonnum af kolmunna í þessari löndunarhrinu.

Þarf að nýta tímann vel
Tóms Kárason, skipstjóri á Beiti sagði í samtali við heimasíðu Síldarvinnlunnar að kolmunnaveiðin fari vel af stað.
„Aflinn sem við komum með fékkst í sjö holum og var að jafnaði dregið í 10–12 tíma. Við fengum frá 460 tonnum og niður í 170 tonn í holi. Árið byrjar býsna vel og við þurfum að halda vel á spöðunum í kolmunnaveiðinni. Það er mikill kolmunnakvóti og það þarf að nýta tímann vel.“

Deila: